Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Bjarnheiði að staða ferðaþjónustufyrirtækja sé mjög slæm og gangi samtökin út frá því að takmarkanirnar verði felldar úr gildi þegar núverandi reglugerð fellur úr gildi. Það væri mjög óskynsamlegt að gera það ekki sagði hún. „Við erum svolítið svekkt að það hafi ekki verið gert nú þegar. Við erum eitt af fáum ríkjum í Evrópu sem eru með einhverjar hömlur á bólusett fólk,“ er haft eftir henni.
Hún sagði að rannsóknir og kannanir bendi til að fólk fari þangað sem ekkert vesen sé og því hafi sýnatakan, sem krafist er áður en fólk kemur til landsins, hamlandi áhrif.
Hún sagði að hömlur á óbólusetta skipti minna máli því þeir ferðist hvort sem er lítið.
Hún benti á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sé búin að segja að takmarkanir af þessu tagi hafi enga þýðingu lengur og þær séu jafnvel hættulegar því svo margar þjóðir eigi mikið undir að ferðaþjónustan komist aftur í gang.
Hún sagði að sumarið líti vel út og samtökin gangi út frá því að það verði gott, það sé nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustuna.