Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að á Reykjanesskaga hafi land risið fyrir og eftir gosið á síðasta ári og alveg fram að því þegar nýtt kvikuskot átti sér stað fyrir áramót. Nú er landris hafið að nýju. Haft er eftir Benedikt Gunnari Ófeigssyni, sérfræðingi hjá Veðurstofunni í jarðskorpuhreyfingum, að líklega sé kvikusöfnun á 12 til 16 km dýpi og sé merkismiðjan á landrisinu undir Fagradalsfjalli en erfitt sé að staðsetja það nákvæmlega.
Benedikt sagði að merki sjáist um landris á merkjum sem berast frá einni stöð utan í Öskju en sambandslaust er við aðrar mælistöðvar þar. Hann sagði að lítið sé að hægja á landrisinu. Líklega sé kvika að safnast fyrir á þriggja kílómetra dýpi.
Hvað varðar Grímsvötn sagði hann að þar geti gosið hvenær sem er. Enn sé landris þar og skjálftavirkni að aukast og ætti ekki að koma neinum á óvart þótt þar gjósi upp úr þurru.