Skíðamaðurinn Sturla Snær Snorrason er þessa stundina staddur í Peking, Kína en hann er hluti af íslenska hópnum sem keppir á Vetrarólympíuleikunum sem nú fara fram. Áður en Sturla fór á æfingu á laugardaginn síðasta tók hann reglubundið kórónuveirupróf, þegar hann var kominn í herbergið sitt eftir æfinguna var svo bankað á dyrnar hans.
„Þar standa einkennisklæddir öryggisverðir og tjá mér að ég sé smitaður af kórónuveirunni. Ég er svo fluttur beint af hótelinu á þennan spítala sem er samansetttur af einhverskonar gámaeiningum,“ segir Sturla í samtali við mbl.is sem fjallaði um málið.
Sturla var settur í eina af þessum gámaeiningum og hefur hann dvalið þar síðan á laugardaginn. Hann segir gámaeininguna einungis vera um 8 fermetrar að stærð en í henni er ekkert nema sjúkrarúm og salerni. Þá er hann ekki með neitt sjónvarp og einu samfélagsmiðlarnir sem virka hjá honum í Kína eru Snapchat og Tinder. „Þetta eru bara fangabúðir, það er ekkert flóknara en það,“ segir hann.
Þá segir hann að maturinn sem hann fær þarna sé ekki upp á marga fiska. „Maturinn hérna er satt best að segja ógeðslegur og alltaf ískaldur þegar hann kemur loksins.“
Á morgun losnar Sturla úr einangruninni en þá þarf hann að fara í vikulanga sóttkví í Ólympíuþorpinu. „Heilsan er orðin nokkuð góð en ég var ennþá slappur í gær. Ég er hins vegar á réttri leið en á sama tíma reyndi ég að gera einhverjar æfingar í morgun til þess að halda mér við,“ segir Sturla en hann má keppa á leikunum þrátt fyrir að hann verði í sóttkví.
Þá segir hann að markmiðin fyrir leikana hafi breyst eftir smitið. „Núna er ég fyrst og fremst að hugsa um að geta staðið í báðir lappir niður brautina, ef maður hefur þá kraftana í það. Það hefur gengið á ýmsu í hausnum á manni undanfarna daga en ég er staðráðinn í að gera mitt allra besta í báðum greinum,“ segir hann að lokum í samtalinu við mbl.is.