Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir. Hún segir að þetta lögmál geri hlutina fljótlega og skilvirk en þetta lögmál eigi ekkert erindi í samfélag siðaðra manna. Hún segir að ef þessi regla eigi að ríkja þá sé gengið út frá því að enginn sé nokkru sinni borinn röngum sökum, sem sé auðvitað fjarstæða. „Dæmi finnast um slíkt og þó þau séu kannski ekki gríðarlega mörg, þá eru þau of mörg meðan einhverjum saklausum er refsað eða þarf að þjást að ósekju. Réttur hins saklausa má aldrei gleymast,“ segir hún.
Hún segir síðan að refsibylgja hafi gengið yfir þjóðfélagið að undanförnu og hafi hún beinst að þeim sem hafa verið sakaðir um margskonar ósæmilegt athæfi. „Þótt mál þeirra hafi ekki ratað til dómstóla þá fyrirfinnst annar dómstóll, dómstóll götunnar, sem í nær öllum tilfellum dæmir af miskunnarleysi og sviptir menn ærunni eins og ekkert sé, og það án þess að vita ýkja mikið um staðreyndir í viðkomandi málum. Öllu er hrúgað saman þannig að dónaskapur og ruddaskapur lendir í sama flokki og alvarleg ofbeldismál. Ruddinn er nánast talinn jafnsekur og ofbeldismaðurinn – sem er gjörsamlega galið. Engu skiptir síðan hvort þeir sem ásakaðir hafa verið segjast vera saklausir. Þeir eru flokkaðir sem blygðunarlausir lygarar,“ segir Kolbrún og bætir við að svona fari hlutirnir þegar þeir fara ekki í réttan farveg heldur sé skellt á Internetið.
Hún víkur síðan að því sem hún segir vera nýtt afbrigði í ásökunarstefnunni en í því felist að ásakanir séu bornar fram án þess að nafngreina viðkomandi. Nokkrar vísbendingar séu gefnar en þær séu ekki svo afgerandi að hægt sé að benda á ákveðinn einstakling út frá þeim, þess í stað liggi nokkrir undir grun sem þurfi síðan að bera af sér sakir eða láta eins og þeir viti ekki að þeir séu í hópi grunaðra. „Þetta er ekki staða sem setja á nokkurn mann í. Við lifum í samfélagi þar sem farið er að líta á dómhörku sem sjálfsagða og eðlilega. Ekki beinlínis geðslegt samfélag,“ segir hún að lokum.