Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Lára hafi farið í veikindaleyfi vegna málsins á fyrir hluta ársins 2021 og hafi síðan sagt upp störfum í apríl. Hún sendi málið til teymis Þjóðkirkjunnar sem rannsakar það nú.
Fyrr í vikunni skýrði Stundin frá því að séra Gunnar hefði verið sendur í leyfi í desember eftir að sex konur sökuðu hann um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að mál Láru sé ekki meðal þeirra sex sem Stundin skýrði frá og því eru að minnsta kosti sjö mál vegna séra Gunnars til rannsóknar hjá sérstöku teymi Þjóðkirkjunnar.
Fréttablaðið hefur eftir stjórnarmeðlimi í Kór Hjallakirkju að kórfélögum hafi blöskrað framkoman við Láru eftir að hún skýrði frá samstarfsörðugleikunum og segir hann að hún hafi ekki fengið þann stuðning sem hún hefði þurft frá öðrum prestum í prestakallinu. Sóknarnefndin hafi stutt vel við bakið á henni en það hafi ekki dugað til.