Baráttukonan Tara Margrét Vilhjálmsdóttir hefur ákveðið að segja sig frá frekari stjórnarstörfum í Samtökum um líkamsvirðingu en hún hefur setið í stjórn samtakanna í 10 ár, eða frá því þau voru stofnuð.
Tara segir frá þessari ákvörðun sinni í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni. „Þetta er ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið en ég finn að ég þarf að gera það fyrir eigin heilsu og velferð. Stjórnarstörfin hafa verið gefandi og stórkostleg en þau hafa líka tekið mikið frá mér og ég er að lenda harkalega á vegg núna,“ segir hún í færslunni.
„Ég finn mig knúna til að hlusta á þau merki sem líkaminn gefur mér um örmögnun og kulnun og hlýða þeim. Það að ég segi mig frá stjórnarstörfum Samtaka um líkamsvirðingu þýðir þó ekki að ég ætli að hætta að tala fyrir líkamsvirðingu og gegn fitufordómum eða hætta að tjá skoðanir mínar um hin ýmsu mál. Þið losnið ekki svo auðveldlega við mig.“
Tara segir að það sé mikil hugsjón og kraftur í líkamsvirðingarsamfélaginu á Íslandi. „Mér finnst það kristallast í þeirri stjórn sem ég kveð núna,“ segir hún. Þá segist hún vera spennt að fylgjast með áframhaldandi stjórn og þeim störfum sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.
„Efst í huga undanfarna daga er líka þakklæti fyrir allt peppið, hugulsemina og stuðninginn sem ég hef fengið frá vinum, fjölskyldu og samfélaginu öllu síðastliðin 10 ár. Óteljandi komment og skilaboð frá allskonar fólki sem þakkaði fyrir sig og hvatti mig til dáða. Allt kraftmikla og yndislega fólkið sem ég hef kynnst, átt samstarf með og eignast ævilanga vini í. Ég ætla að halda fastar í það en mótlætið sem ég hef mætt.“
Tara gefur svo í skyn að hún sé ekki að kveðja samtökin fyrir fullt og allt. „Og hver veit? Kannski sný ég aftur til stjórnarstarfa þegar ég hef náð meira jafnvægi og fyllt á tankinn. Framtíðin er enn óráðin. En fyrst ég er að taka mér þessa pásu langaði mig að nýta tækifærið og segja takk. Fyrir allt.“