Kennaraneminn Erlingur Sigvaldason hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík en hann sækist eftir 3. sæti listans.
„Það sem ég brenn helst fyrir eru skólamál, ég er kennaranemi ásamt því að starfa við kennslu í grunnskóla og í félagsmiðstöð. Þegar kemur að leik- og grunnskólum þarf að ýta undir rými fyrir fagmennsku,“ segir Erlingur í upphafi yfirlýsingar sem hann gaf út vegna framboðsins.
Erlingur segir til að mynda að of mikið sé um þéttsetna bekki í grunnskólum borgarinnar. Honum finnst að það þurfi að breyta því með stærri húsakostum og auknum fjölda kennara á hvern nemanda. „Forsendur einstaklingsmiðunar í grunnskólakennslu eru brostnar. Reykjavíkurborg þarf að vera leiðandi afl í að endurreisa þær forsendur með því efla bæði skóla á vegum borgarinnar og þeirra sem eru sjálfstætt starfandi,“ segir hann.
Þá finnst honum mikilvægt að efla tengslin milli skóla og félagsmiðstöðva. „Menntagildið í starfi félagsmiðstöðva á það til að gleymast í umræðunni. Undanfarin ár hafa félagsmiðstöðvar sinnt kynfræðslu mun betur en grunnskólarnir, ásamt fræðslu um hinseginleika, ofbeldi og margt fleira,“ segir hann.
„Mig langar til að efla þessa fræðslu en frekar. Forvarnargildi félagsmiðstöðvar er gríðarlega mikið og á það að eiga stærri sess inni í skólastofunni. Með samstarfi á milli skóla og félagsmiðstöðva er hægt að koma starfsfólki þess síðarnefnda inn í skólana til að sinna forvarnarstarfi á sviðum á borð við kynfræðslu. Aukið samstarf sem þetta hefur til að mynda reynst gríðarlega vel í Seljahverfi.“
Erlingur talar einnig um framtíðarsýn sína á Reykjavík í yfirlýsingunni. „Ég vil fá tækifæri til þess að taka þátt í mótun hinnar nýju Reykjavíkur sem ég mun koma til með að vera hluti af um ókomna tíð,“ segir hann.
„Framtíðarsýn mín á Reykjavík er borg sem er skipulögð í kringum blómlegt mannlíf í meiri mæli en gert hefur verið áður, þar sem almenningssamgöngum er gert hátt undir höfði með Borgarlínu í lykilhlutverki og þar sem þung bílamannvirki víkja í þágu grænna svæða og þéttari byggð. Saman getum við byggt upp Reykjavík sem er opin, græn og fræðandi.“