„Flest fólk sýnir samfélaginu sínu áhuga. Því er annt um samborgara sína, bæði þá sem það þekkir persónulega en líka þá sem það þekkir ekki. Þetta gildir um flest samfélög en kannski sérstaklega þau sem eru fámenn, eins og okkar íslenska samfélag.“
Svona hefst pistill sem Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, skrifar en pistillinn birtist í Fréttablaði dagsins í dag. „Örlög samborgara okkar skipta okkur máli. Þess vegna fylgjumst við með fréttum fjölmiðla og þess vegna flytja fjölmiðlar fréttir af örlögum fólks og verja vinnudegi sínum í að afla upplýsinga sem varpað geta sem bestu ljósi á þau,“ segir Aðalheiður.
Hún segir áhuga Íslendinga á hvorum öðrum vera fagnaðaraefni þar sem það væri nöturleg tilhugsun að búa í samfélagi sem er sama um örlög annars fólks í því.
Aðalheiður ræðir þá um hvernig þetta einkenni íslensks samfélags hefur áhrif á fjölmiðla og fréttamat þeirra „Þetta megineinkenni á samfélagi manna er eðli málsins samkvæmt ofarlega á blaði í fréttamati fjölmiðla, hvort sem um er að ræða umfjöllun um kynferðisbrot og glæpi, slys eða aðrar hörmungar,“ segir hún.
Þá segir hún að sjálfsögðu hafi fleira en þetta áhrif á fréttamatið. „Fjölmiðlar veita aðhald og spyrja gagnrýninna spurninga í þágu samfélagsins. Stundum vakna spurningar um hvort mistök hafi verið gerð, valdi verið misbeitt eða brotið gegn almannahag á einhvern hátt,“ segir hún.
„Slíkur grunur getur vaknað vegna ábendinga sem fjölmiðlum berast eða vegna upplýsinga sem aflað hefur verið með öðrum hætti. Þær þarf að sannreyna og greina svo frá því sem út úr því kemur.“
Aðalheiður segir að einmitt þetta sé meginstarf þeirra sem vinna við að flytja fréttir. Þá sé þetta einnig það sem greinir fjölmiðla frá samfélagsmiðlum og öðrum vettvöngum frjálsrar tjáningar. „Því miður eru alltaf einhverjir sem telja fjölmiðla fyrst og fremst keyrða áfram af annarlegum hvötum,“ segir hún og bendir á Donald Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem dæmi.
Þá segir Aðalheiður að Trump hafi gert það að sérstöku markmiði sínu að rýra traust til fjölmiðla af því þeir fjölluðu um hann með gagnrýnum hætti.
Hún bætir því svo við að margir feti sömu slóðir og Trump. „Á tímum upplýsingaóreiðu og ítrekaðra viðvarana um falsfréttir er ábyrgðarhluti að rægja fjölmiðla sem starfa eftir viðurkenndum aðferðum og gefa almenningi ranglega til kynna að þeir séu á villigötum í fréttaflutningi,“ segir hún.
„Það er of algengt hér á landi að fólk, sem starfs síns vegna getur átt von á símtali frá blaðamanni, líti á hann sem óvin sinn, svari honum seint eða illa, sýni honum fyrirlitningu í tilsvörum eða geri hann jafnvel sjálfan að helsta sökudólgi þess máls sem til umfjöllunar er. Verst er þó ef borgarar í landinu stökkva á slíka vagna, því það er í þeirra þágu sem fjölmiðlarnir starfa.“