Stjörnukírópraktorinn Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi Kíró, hugsar vel um húðina. Hann ræðir um húðrútínu sína og snyrtivörurnar sem hann notar í nýjasta þætti af Snyrtiborðið með HI beauty. Vísir greinir frá.
Gummi kemur fram í þættinum ásamt kærustu sinni, athafnakonunni Línu Birgittu Sigurðardóttur.
Það mætti segja að Gummi og Lína séu annálaðir fagurkerar. Stjörnukírópraktorinn er einn helsti tískumógull landsins og fór nýlega yfir það sem er „inni og úti“ í tísku.
Sjá einnig: Gummi Kíró fer yfir hvað er „inni og úti“ í tísku – „Þetta verður umdeilt“
Gummi deilir þessu áhugamáli með Línu og eiga þau glæsilegt safn merkjavara. Þau eru yfirleitt bæði með veski frá merkjum eins og Gucci, Fendi, Chanel og Yves Saint Laurent.
Gummi fer yfir húðrútínuna sína í þættinum og sýnir hvaða snyrtivörur hann notar. Hann byrjar á því að fara yfir hvaða snyrtivörur eru alltaf í veskinu hans; rakasprey og varasalvi.
„Ég er alltaf með varasalva [í veskinu], en svo er ég eiginlega alltaf með sprey. Mér finnst stundum gott að fríska aðeins upp á andlitið seinni partinn,“ segir hann.
Þegar kemur að húðinni þá notar hann dagkrem alla daga og maska reglulega, og eru maskar frá Bláa lóninu í sérstöku uppáhaldi.
Gummi leggur áherslu á að þrífa húðina vel og djúphreinsir hana þrisvar í viku.
Horfðu á þáttinn í spilaranum hér að neðan. Lína Birgitta fer einnig yfir sína húðrútínu og svarar parið skemmtilegum hraðaspurningum.