Séra Gunnar Sigurjónsson var sendur í leyfi síðastliðinn desember. Greint var frá því að það hafi verið vegna samstarfsörðugleika en nýjar upplýsingar benda til þess að um djúpstæðari vanda hafi verið að ræða.
Stundin greinir frá því í dag að sex konur hafi tilkynnt Gunnar vegna kynferðislegrar áreitni, kynbundins ofbeldis og eineltis. Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að dæmin um alvarlega kynferðislega áreitni og kerfisbundið, langvarandi kynbundið ofbeldi séu mörg.
Heimildir Stundarinnar herma að áreitið og ofbeldið hafi verið svo mikið að hluti kvennanna sex hafi ekki treyst sér til að starfa í Digranes- og Hjallaprestakall í Kópavogi þar sem Gunnar er sóknarprestur.
Mál Gunnars er eitt af þeim 12 málum sem teymi þjóðkirkjunnar í málefnum kynferðisofbeldis, áreitni og eineltis er með til skoðunar. Þrír fulltrúar eru í teyminu en þeir voru skipaðir af Kirkjuráði, það eru Bragi Björnsson, lögmaður og formaður teymisins, Ragna Björg Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi og varaformaður, og Karl Einarsson geðlæknir.
Í stuttu samtali við DV vildi Bragi ekki ræða einstök mál.