Þann 31. júlí á síðasta ári var lögregla kölluð út að frístundabyggðinni Ty Mawr Holiday Park í norðurhluta Wales, eftir að hafa fengið tilkynningu um mögulegt heimilisofbeldi og að ung stúlka væri meðvitundarlaus og virtist vera hætt að anda.
Þegar lögregla kom á vettvang var ljóst að unga stúlkan, hin 15 ára gamla Amanda Selby, var látin og báru endurlífgunartilraunir ekki árangur.
Krufning leiddi í ljós að Amanda hafði látið lífið eftir að þrengt var að hálsi hennar.
Amanda hafði verið á ferðalagi með fjölskyldu sinni og grunur lögreglu beindist fljótt að eldri bróður hennar, Matthew sem var síðar ákærður fyrir að hafa orðið systur sinni að bana og áttu réttarhöld að hefjast síðar í þessum mánuði. Í fyrstu hélt Matthew því fram að hann væri saklaus, og hefði engan hlut átt í andláti litlu systur sinnar.
Það kom því mörgum á óvart þegar hann í dag játaði morðið. Hann fór fyrir dóm í dag, með aðstoð fjarfundabúnaðar, þar sem hann gekkst við broti sínu fyrir framan dómara. Ákæruvaldið samþykkti játninguna og að hún yrði talin gilda sem játning á manndrápi af lægra ásetningsstigi, en við þá ákvörðun höfðu þau geðmat sem hafði farið fram á Matthew til hliðsjónar.
Dómarinn sagði: „Ég hef líka lestið skýrslur frá báðum geðlæknunum og skil vel þá ákvörðun sem ákæruvaldið hefur tekið.“
Málinu hefur nú verið frestað til 18. mars en þá mun dómari ákveða hversu þungan dóm Matthew hlýtur.
Ekki hefur komið fram í fjölmiðlum hvað geðmatið leiddi í ljós, en fjölmiðlar höfðu það eftir nágrönnum fjölskyldunnar að Matthew hafi meðal annars glímt við námserfiðleika.
„Matthew er glímir við námserfiðleika. Við höfum ekki séð hann mikið nýlega því foreldrar hans voru að skilja. Systir hans fór með mömmu þeirra og Matthew varð eftir með pabba sínum um stundarsakir áður en hann flutti inn til ömmu sinnar og afa. Hann var glaðvær drengur. Þetta er svo sorglegt,“ sagði einn nágranninn.
Skömmu eftir harmleikinn gaf fjölskylda systkinanna frá sér yfirlýsingu. Þar segir meðal annars:
„Amanda var dásamleg dóttir og barnabarn – hún var umhyggjusöm, tillitsöm, alltaf tilbúin að hjála og ákaflega mikið elskuð. Hennar verður sárt saknað.“