Verslunin Hrím hönnunarhús birti í gærkvöldi afar umdeilda auglýsingu á Facebook-síðu sinni. Um er að ræða mynd sem tekin er af björgunarsveitarfólki við leit að líkum fólksins sem fórst í flugslysinu í Þingvallavatni. Hrím vakti athygli á myndinni vegna vatnshelds poka sem sjá mátti á henni en pokinn er framleiddur af Hrím.
„Vonum að leitin fari að skila árangri og nóttin fari vel hjá öllum. Takk elsku björgunarsveitir landsins fyrir að vera naglar. Takk fyrir fallega mynd af Regnpokanum okkar,“ stóð í færslunni sem Hrím birti á Facebook-síðu sinni.
Netverjar voru fljótir til við að gagnrýna verslunina fyrir að nota leitina að fólkinu til að auglýsa vöru frá sér. Til að mynda spratt upp fjörug umræða í Facebook-hópnum Markaðsnördar um auglýsinguna. „Það hefði verið ekkert mál að nota þessa mynd eftir einhverjar vikur í almennum pósti og minnast á flotta starfið hjá björgunarsveitunum en að gera það í dag og tengja það þessari tilteknu leit „Vonum að leitin (að mannslíkunum) fari að skila árangri – en hey hér er flott mynd af pokanum okkar“ Úff…“ segir til að mynda einn meðlimur hópsins og fleiri taka í svipaða strengi.
„Það er tími og staður fyrir það að nýta ókeypis plögg eeeen þetta var klúður. Persónulega myndi ég aldrei nýta myndir frá dauðaslysum þó það sé mörgum vikum seinna en það er kannski bara ég. Fengi frekar einhvern til að taka mynd af pokanum við annað erindi en þetta,“ segir til dæmis annar meðlimur hópsins.
Þá vakti auglýsingin einnig töluverða athygli á samfélagsmiðlinum Twitter.
Jæja já… pic.twitter.com/s9WfDC8AEO
— Hafþór Óli (@HaffiO) February 6, 2022
Þetta er viðbjóður. Sýnist þau samt hafa tekið þetta niður en sjit, kann fólk ekki að fokking skammast sín?????
— Silja Björk (@siljabjorkk) February 7, 2022
Fokk! Hversu taktlaust …
— Iris Sigtryggsdottir (@irissigtrx) February 7, 2022
Ljóst er að verslunin hefur séð að sér en færslunni var eytt fljótlega eftir að hún var birt. Hún fékk þó að standa í að minnsta kosti um 20 mínútur.
Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi Hrím, tekur til máls í athugasemdunum við færsluna. Hún segir að færslan hafi verið birt á röngum tíma og að um mannleg mistök væri að ræða. „Fengum þessa mynd senda í morgun frá björgunarsveitinni. Vildum bara þakka fyrir starfið þeirra og óska þeim góðs gengis í leitinni en því miður póstaðist þetta á röngum tíma og var strax tekið út. Mannleg mistök og vonandi skiljið þið það gerist. Ást og friður og vonandi verður nóttin ykkar góð,“ segir Tinna.
Þessi afsökun fór þó ekki svo vel í meðlimi hópsins. „Hvenær nákvæmlega er „réttur“ tími til að capitaliza á leit af fólki sem augljóslega var aldrei að fara að finnast á lífi?“ segir til dæmis einn meðlimur í svari við athugasemd Tinnu.
Annar meðlimur bendir svo á að „rangur tími“ eigi ekki alveg við í þessu tilviki. „Sorry en þetta flýgur bara ekki. Þið skrifið „Vonum að leitin fari að skila árángri og nóttin fari vel hjá öllum“ áður en þið beinið athygli að regnpokanum ykkar. Voruð þið að tala um einhverja ímyndaða leit og nótt í mars? Það var bara einhver sem klúðraði og las virkilega illa í aðstæður. Segðu það bara í staðinn fyrir að halda fram að þetta hafi verið póstað á „röngum tíma“ hvað sem það þýðir.“