Þó veðrið í morgun hafi verið betra en varað hafði verið við er ljóst að mikill hvellur gekk yfir í nótt. Fréttir hafa borist af minniháttar skemmdum á húsum og bifreiðum í borginni, en heilt yfir er ljóst að betur fór en á horfðist.
Miðað við vindatölur sem vindmælar Vegagerðarinnar mældu í nótt er ljóst að verr hefði getað farið.
Þannig sýndi til dæmis vindmælirinn við Tíðaskarð, við suðurenda Hvalfjarðarganga, um 65 m/s hviðu klukkan 3:40 í nótt. Sjá má á línuriti vegagerðarinnar að veðrið fór hratt upp en dó jafnframt jafn hratt niður og var að mestu lokið um klukkan 7 í morgun.
65 metrar á sekúndu jafngilda um 234 km/klst.
Við Blikdalsá, rétt sunnan við Hvalfjörðinn fóru hviður upp í 50 m/s, eða um 180 km/klst.
Óveðrið færir sig nú fljótt norðaustur eftir landinu og er nú þegar farið að valda usla á Norðausturlandi og Austfjörðum. Það versta verður yfirstaðið þar um klukkan tvö í dag.
Um klukkan átta í kvöld fer aftur að hvessa á Suðurströnd og Suðvesturhorni en róast með morgni. Lokahnykkurinn skellur svo á Suður- og Suðausturlandi á miðvikudagsmorgun þegar tekur að blása duglega að norðan. Má búast við ófærð eða í besta falli mjög erfiðum akstursskilyrðum þar fram eftir miðvikudegi og fram á kvöld undir Vatnajökli og austur að Hvalnesi.