Fyrir fáeinum vikum var um fátt annað rætt en Vítalíu Lazareva eftir að hún steig fram og greindi frá ofbeldi valdamikilla karlmanna. Í kjölfarið hófst atburðarás sem leiddi til þess að fimm karlmenn stigu til hliðar eða hættu í störfum sínum. Vítalía hefur í kjölfarið verið kölluð þjóðhetja en í viðtali við Fréttablaðið segist hún ekki hafa búist við þeim viðbrögðum sem frásögn hennar fékk.
„Þegar ég hugsa um þetta fæ ég gæsahúð, en ég veit að þessi viðbrögð urðu ekki vegna þess að það var ég sem sagði mína sögu eða að hún hafi verið áhrifameiri en sögur annarra, ég held að þetta snúist um það hvenær ég sagði hana“
Fimm menn hafa verið nafngreindir í tengslum við frásögn hennar, Arnar Grant, Þórður Már Jóhannesson, Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Logi Bergmann Eiðsson. Í umræðum sem hafa sprottið upp í tengslum við málið hafa margir velt fyrir sér hver hlutur hvers og eins var í því ofbeldi sem átti sér stað og Vítalía svarar því í viðtalinu við Fréttablaðið að allir hafi þeir átt sinn þátt.
„Ég get sagt það að það er enginn jafn sekur og hinn, allir gerðu sitt og allir eiga sinn þátt í því sem gerðist, það er bara þannig.“
Hún bendir einnig á að því fylgi ábyrgð að vera á staðnum sem áhorfandi þegar ofbeldi er beitt.
Hún segir að í kjölfar þess að hún steig fram hafi hún fengið fjölda skilaboða úr öllum áttum. Fólk stoppi hana úti á götu til að hrósa henni fyrir hugrekkið og til að þakka henni fyrir. Þetta þyki henni vænt um en hafi þó ekki búist við.
„Ég bjóst ekki við hatri og ég bjóst ekki við stuðningi. Ég var ekki búin að hugsa um hvað myndi gerast á morgun eða eftir viku og hafði ekki gert neinar ráðstafanir.“
Nú sé það þannig að fólk beri kennsl á hana víða.
„Núna er það þannig, þegar ég fer út að borða eða í ræktina, þá horfir fólk mikið og margir brosa til mín. Aðrir koma upp að mér og segja mér að þeim finnist ég hugrökk og fólk hefur jafnvel kallað mig hetju“
Eins hafi komið henni á óvart þær mörgu frásagnir af ofbeldi sem fólk hefur sent henni og treyst henni fyrir. Þessar frásagnir hafi haft mikil áhrif á hana en líka hjálpað henni.
Hún segist þakklát fyrir alla hjálpina sem hún hefur fengið og fyrir stuðninginn.
Fyrir ekki svo löngu hafi hún verið viss um að hún kæmist aldrei yfir það sem gerðist. Hún hafi um tíma ekki þorað út úr húsi eða að tala við neinn þar sem hún vissi ekki hverjum hún gæti treyst.
„Um tíma lá ég bara á jörðinni og sá ekki fyrir mér að ég myndi standa aftur upp.“
Hún hafi ákveðið að aðeins væri tvennt í stöðunni að „sitja og gráta eða dusta af mér rykið og halda áfram.“
„Ég er fegin að ég áttaði mig á því að í rauninni væri bara eitt í stöðunni, að standa upp og halda áfram, ég er 24 ára og á eftir að gera svo margt. Vítalía er ekki það sem gerðist, heldur bara manneskja.“
Ítarlegt viðtal við Vítalíu í helgarblaði Fréttablaðsins má lesa hér