Í Lögbirtingablaðinu í dag eru birt dómsorð Héraðsdóms Suðurlands yfir Bandaríkjamanni á fertugsaldri. Dómur í málinu féll þann 21. október síðastliðinn en um var að ræða brot á umferðalögum þó ekki komi fram hvers eðlis það var.
Dómsorðið er á þá leið að Bandaríkjamaðurinn, sem heitir Graham M. Bensinger, greiði 210 þúsund króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 16 daga. Þá var hinn ákærði sviptur ökurétti í einn mánuð frá birtingu dómsins. Í ljósi þess að rúmlega þrír mánuðir eru liðnir síðan dómurinn féll þá má reikna með því að Bandaríkjamaðurinn verði handtekinn á Íslandi næst þegar hann heimsækir landið heim.
Það sem vekur athygli er að Graham M. Bersinger er þekktur fjölmiðlamaður og frumkvöðull í Bandaríkjunum. Hann er fæddur árið 1986 hneigðist snemma til blaðamennsku því þegar hann var 14 ára gamall var talað um hann sem undrabarn á því sviði. Hann var á táningsaldri þegar hann tók viðtal við O.J. Simpson sem endaði með að vera sýnt í hinum heimsfræga sjónvarpsþætti Good Morning America.
Hann vann í mörg ár í lausamennsku við ýmsar útvarps- og sjónvarpsstöðvar en árið 2010 fór hann í loftið með sjónvarpsþættina „In Depth with Graham Bensinger“ sem snúast um að þáttarstjórnandinn ferðast um heiminn og tekur ítarleg viðtöl við heimsþekkta einstaklinga með sérstakri áherslu á íþróttafólk.
Á heimasíðu þáttarins, sem sýndur er á helstu kapalsjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna, kemur fram að 3 milljónir áhorfenda horfi á þættina í hverri viku. Stærsta stund Bersinger á ferlinum er vafalaust Emmy-verðlauna viðtal hans við Mike Tyson árið 2012 en hann hefur einnig tekið eftirtektarverð viðtöl við Lewis Hamilton, Novak Djokovic, Dennis Rodman, Arnold Schwarzenegger í og Richard Branson svo einhverjir séu nefndir.
Nýverið hóf síðan Bensinger að selja áskrift af viðtölum á Youtube og er hann með rúmlega 600 þúsund mánaðrlega áskrifendur í dag. Hann hefði því átt að eiga fyrir sektinni sem íslensk yfirvöld lögðu á hann.