fbpx
Föstudagur 07.febrúar 2025
Fréttir

Átökin í SÁÁ: Kári segist ekki vera vændiskaupandinn og Edda segist hafa svarað í hálfkæringi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. febrúar 2022 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og ítarlega var tíundað í fjölmiðlum í gær hætti Þóra Kristín Ásgeirsdóttir við framboð til formannsembættis SÁÁ rétt fyrir aðalfund samtakanna og bæði hún og Kári Stefánsson sögðu sig úr stjórn samtakanna.

Sem ástæðu fyrir þessari ákvörðun tilgreindi Þóra söguburð og ófrægingarherferð gegn þeim báðum þar sem reynt væri að nota atvik frá þeim tíma ævi þeirra er þau neyttu áfengis en bæði eru óvirkir alkóhólistar eins og flestir, ef ekki allir, í stjórn samtakanna.

Kornið sem fyllti mælinn mun vera fyrirspurn Arnþór Jónssonar, fyrrverandi formanns samtakanna, um að ónefndur vændiskaupandi sem aktivistinn Edda Falak greindi frá í tilkynningu sem hún  birti í Facebook-hópnum „Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu“ væri Kári Stefánsson.

Sjá einnig: Hvernig rætin kjaftasaga sprottin af pósti Eddu Falak varð til þess að Þóra Kristín og Kári hættu í SÁÁ

Umræddur hópur telur um 6.700 manns en þar sem hópurinn er opinn og efni sem birtist í honum oft mjög eldfimt eru mun fleiri sem lesa færslur sem birtast í honum. Edda sagðist vera í sambandi við konu sem hefði orðið fyrir vændi fyrir nokkrum árum og vændiskaupandinn væri þjóðþekktur maður sem hefði tjáð sig mikið um Covid auk þess að lýsa fíknivandamálum. Óskaði Edda eftir því að komast í samband við fólk sem þekkti til mannsins og hefði upplýsingar um hann.

Rétt fyrir hádegi í gær sendi Arnþór Jónsson tölvupóst á Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, formannsframbjóðanda, sem innihélt skjáskot af umræddri tilkynningu Eddu og eftirfarandi texta:

„Meðfylgjandi er skjáskot frá í gær 2. febrúar. Konur sem telja sig eiga um sárt að binda vegna ósæmilegrar framkomu einhvers frægðarmennis, munu líklega stíga fram og segja sögu sína. Ef marka má upplýsingarnar á myndinni gætu þolendurnir verið skjólstæðingar SÁÁ. Mér hefur verið sagt að gerandinn sé Kári Stefánsson. Getur þú staðfest við stjórn SÁÁ að svo sé ekki?“

Þetta var kornið sem fyllti mælinn og Þóra og Kári sögðu sig úr SÁÁ.

Frosti ásakar Arnþór

Frosti Logason brást við þessum fréttum með því að senda tölvupóst á alla stjórnina. Þar segir hann Eddu Falak hafa staðfest að umræddur vændiskaupandi í tilkynningu hennar væri ekki Kári Stefánsson. Jafnframt sakaði hann Arnþór um ofbeldishegðun:

„Þóra Kristín og Kári Stefánsson hafa ákveðið að draga sig alfarið úr stjórn samtakanna vegna þeirrar ofbeldishegðunar sem Arnþór Jónsson og félagar hafa verið að sýna af sér í dag eins og á liðnum árum. Það skal tekið hér fram að Edda Falak hefur staðfest það við Arnþór að ekki sé um Kára Stefánsson að ræða í þessum orðrómi um vændiskaup sem hún var að fiska eftir á samfélagsmiðlum. Eftir stendur að ítrekað ofbeldi Arnþórs og félaga heldur áfram að eyðileggja fyrir okkar ágætu samtökum og það er miður,“ skrifar Frosti í póstinum til stjórnarmeðlima.

Kári Stefánsson lýsti því sjálfur yfir í viðtali við Stundina í gærkvöld að hann væri ekki maðurinn sem um getur í tilkynningu Eddu Falak. „Það er ekki verið að tala um mig,“ sagði Kári. Hann sagðist jafnframt hafa hætt í samtökunum vegna aðdróttana fyrrverandi stjórnenda SÁÁ í sinn garð. „Þeir bjuggu til aðdróttanir í minn garð úr efni sem þeir fundu annars staðar.“

Viðbrögð Eddu Falak

Edda Falak brást hart við fréttum um tölvupóst Frosta og skrifaði á Twitter:

„Orðróm um vændiskaup sem ég var að fiska eftir? Fáðu þér nú bara sæti Frosti minn og þegiðu. Það er ekki Arnþór sem hefur eyðilagt þessi handónýtu samtök ykkar.“

Í tísti sem hún birti skömmu áður fagnaði hún brotthvarfi Þóru og Kára úr SÁÁ: „Flott. Bless bæði tvö.“

Edda fjarlægði síðan tilkynninguna eldfimu úr Facebook-hópnum og birti nýja tilkynningu þar sem hún þakkaði fyrir hjálpina við upplýsingaleitina.

Seint í gærkvöld birti Edda síðan tíst þar sem hún segist hafa svarað Arnþóri í hálfkæringi enda væri hún bundin trúnaði við þolanda. Frábiður hún sé að blandast inn í pólitík innan SÁÁ.

Arnþór segir af sér

Nýjustu vendingarnar í málinu eru þær að Arnþór Jónsson hefur sagt sig úr stjórn SÁÁ, eins og DV greindi frá fyrr í morgun. Í afsagnarbréfi sínu til stjórnar fer Arnþór yfir atburðarás síðustu daga og kveðst hafa reynt að rækja skyldur sínar sem stjórnarmaður. Hann segist hafa talið það skyldu sína að spyrjast út orðróm sem væri sterkur í samfélaginu, og vísar hann þar til sögusagna um vændiskaup Kára Stefánssonar. „Ofbeldi þrífst í þrúgandi þögninni. Í mínum huga var ekki hægt að fara í
formannskosningar án þess að ávarpa þetta óþægilega mál og fá afgerandi svar. Taldi ég 48 manna stjórnina rétta vettvanginn til þess, enda höfðu áður komið fram ásakanir í fjölmiðlum um að stjórnarmenn hefðu vitað um vændiskaup fyrrverandi formanns en þagað yfir þeim.“

Arnþór segir jafnframt að stjórnarmenn hafi sagt á fundi að þeir vildu skjóta hann í hausinn. Afsagnarbréf hans er eftirfarandi í heild:

„Ég undirritaður, Arnþór Jónsson, segi mig hér með úr stjórn SÁÁ.

Ég hef reynt að rækja skyldur mínar sem stjórnarmaður. Í því felst að fylgja eigin sannfæringu og spyrja spurninga – þótt þær séu óþægilegar. Í gær varð mér á að spyrja út í orðróm sem ég hafði heyrt, og er sterkur í samfélaginu. Í ljósi nýliðinna atburða taldi ég það skyldu mína að fá skýrt svar um að hann væri rangur, áður en gengið væri til formannskosninga. Taldi ég formannsefnið sama sinnis enda hafði hún áður farið mikinn í fjölmiðlum, ætlaði að stofna sannleiksnefnd og sagði m.a. í yfirlýsingu: „Nýkjörin stjórn þarf að setja sér siðareglur til að tryggja að það hafi sjálfkrafa í för með sér brottvísun úr öllum trúnaðarstöðum ef fólk innan samtakanna verður uppvíst að því að brjóta á veiku fólki eða misnota aðstöðu sína.“

Ofbeldi þrífst í þrúgandi þögninni. Í mínum huga var ekki hægt að fara í formannskosningar án þess að ávarpa þetta óþægilega mál og fá afgerandi svar. Taldi ég 48 manna stjórnina rétta vettvanginn til þess, enda höfðu áður komið fram ásakanir í fjölmiðlum um að stjórnarmenn hefðu vitað um vændiskaup fyrrverandi formanns en þagað yfir þeim.

Að fylgjast með SÁÁ undanfarin misseri hefur verið eins og að horfa á bílslys spilað hægt. Sem stjórnarmaður hef ég fylgst með og reynt að grípa inn. Mér er það auðvitað löngu ljóst að skoðanir mínar eru óvinsælar en ég hef litið svo á að ég vinni fyrir SÁÁ – samtökin og sjúklingana – ekki stjórnina. Ég var kosinn til að vinna eftir minni sannfæringu og það hef ég gert.

Gagnrýni mín á vinnubrögð samtakanna hefur verið kölluð ofbeldi. Ég hef verið sakaður um að stjórna eftirliti Sjúkratrygginga Íslands, fjölmiðlaumræðu um SÁÁ og nú síðast sjálfri metoo byltingunni. Stjórnarmenn hafa sagt á fundi að þeir vilji skjóta mig í hausinn. Þeir hafa logið upp á mig og fjölskyldu mína í blaðaviðtölum. Hingað til hef ég ekki nennt að svara þessu, en kannski er það tímabært:

Ég stjórna ekki Sjúkratryggingum Íslands. Ég ber ekki ábyrgð á þeim vanda sem núverandi framkvæmdastjórn samtakanna er komin í. Ég veit ekkert um
hvern Edda Falak er að tala í umræddu skjáskoti. Ég biðst afsökunar á að hafa sagt upphátt það sem aðrir voru að hvísla um sín á milli í samfélaginu.

Ég vann hjá SÁÁ í yfir 20 ár. Ég var formaður í sjö ár og þegar ég lét af störfum höfðu samtökin aldrei staðið betur hvað varðar fjárhagslegt sjálfstæði, umgörð og aðbúnað. Það hefur gjörbreyst á stuttum tíma. Ég les í fjölmiðlum að Frosti Logason telur mig vera stærsta vandamál SÁÁ. Ef það er rétt hlýtur vandi SÁÁ að vera núna úr sögunni.

Kveðja, Arnþór Jónsson“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Í gær

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur