Vélin fór frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í gærmorgun en skilaði sér ekki aftur samkvæmt áætlun. Síðast heyrðist frá vélinni klukkan hálf tólf.
Búið er að kalla út björgunarsveitir alls staðar af að landinu og verður fjölmennt leitarlið við störf í dag.
Fréttablaðið hefur eftir Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, að leitin sé ein sú umfangsmesta á síðari árum. Hann sagði einnig að búið væri að láta aðstandendur vita af stöðu mála.
Flugið var skipulagt sem útsýnisflug og sagði Ásgeir að farþegarnir hafi ætlað að taka myndir af náttúrunni. Vélin sem leitað er að er hvít fjögurra sæta Cessna.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að farþegarnir þrír hafi verið í hópi sem kom til landsins á mánudaginn. Þeir eru af ýmsum þjóðernum og báðum kynjum.
RÚV hefur eftir Auðunni Kristinssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, að sjónir leitarmanna hafi aðallega beinst að svæðinu við sunnanvert Þingvallavatn, Grafning, Úlfljótsvatn, Sogið, Lyngdalsheiði og nágrenni. Er þetta byggt á fyrirliggjandi upplýsingum um flugleið og þeim litlu upplýsingum sem hafa borist frá farsímum þeirra sem eru í vélinni.
Hann sagði að leit verði haldið áfram á þessu svæði í dag en leitarsvæðið verði líklega stækkað til norðurs og austurs.