Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna, var gestur í þættinum Okkar á milli á RÚV í kvöld. Þar opnaði Gylfi sig meðal annars um morðið á móður sinni en bróðir hennar myrti hana á bóndabænum sínum á norðurlandi.
„Það sem gerist fyrir hana er að bróðir hennar myrðir hana, hann lemur hana til bana, þar sem hún er að fara að heimsækja hann. Hann bjó á bóndabæ fyrir norðan. Það er svona ákveðið áfall náttúrulega sem mótar mann. Þetta er eitthvað sem betur fer fáir lenda í að upplifa en eitthvað sem hefur að vissu leyti og mörgu leyti mótað mig og fengið mig til þess að opna augun fyrir alls konar hlutum sem aðrir eru ekki að horfa á,“ segir Gylfi í þættinum og bætir því við að þetta hafi gert hann að þeim manni sem hann er í dag.
Gylfi segir að morðið hafi sýnt sér hvað lífið er stutt. „Lífið er mjög hverfult og við þurfum að nýta þær stundir sem við höfum og við þurfum að nýta þær stundir sem við getum, að segja þeim sem nálægt okkur eru að okkur þykir vænt um þau. Það er oft þannig með kannski okkur karlmennina að það er feimnismál að segjast elska vini sína en ég geri það, ég elska vini mína og ég segi þeim það,“ segir hann.
Gylfi segir einnig frá því í þættinum hvernig hann komst að því að móðir hans væri látin. Hann var staddur á árshátíð þegar vinur hans sagði honum að það væri verið að leita að honum.
„Ég hafði verið á árshátíð þarna um kvöldið. Ég var nýbúinn að eignast mitt fyrsta barn ásamt þáverandi konunni minni, hún var nú ekki lengi á árshátíðinni en ég ákvað að vera aðeins lengur. Ég kem inn á Hótel Ísland sem þá var skemmtistaður, þar var kunningi minn að starfa sem tekur mig afsíðis og segir mér að það sé verið að leita að mér og að ég þurfi að koma með honum heim til pabba,“ segir hann.
Þegar hann var kominn heim til föður síns komst hann að því að móðir hans væri látin, hann vissi þó ekki hvað hafði komið fyrir. „Við feðgar svona ákváðum það eiginlega með sjálfum okkur að hún hefði látist úr astma, hún var astmasjúklingur. Það var svona það fyrsta sem kom í hugann, okkur fannst bara rökrétt að það hefði gerst,“ segir hann.
Daginn eftir fóru Gylfi og faðir hans til Akureyrar en þar tók lögreglan á móti þeim en sagði þeim þó ekki hvað hafði gerst. „Þeir fara með okkur upp á lögreglustöð, þegar við komum þangað þá er fyrsti maðurinn sem við hittum bróðir mömmu. Þá er hann að koma niður einhverjar tröppur þarna og hann vottar okkur samúð sína og við til baka,“ segir Gylfi.
Eftir þetta ræddi lögreglan við bæði föður Gylfa og Gylfa sjálfan en þeir fengu ekkert að heyra hvernig móðir Gylfa lést. Það var ekki fyrr en þeir komu upp á hótel um kvöldið sem þeir sáu kvöldfréttir Stöðvar 2 sem þeir komust að því að hún hafði verið myrt. „Þá vissum við hvernig hún hafði dáið, þannig fréttum við það,“ segir Gylfi.