Kona sem varð fyrir aftanákeyrslu á Bústaðavegi þann 30. nóvember árið 2015 tapaði í dag skaðabótamáli gegn Sjóvá Almennum í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Konan fékk hnykk og háls og hryggsúlu í óhappinu og stríddi eftir það við stöðuga verki og var óvinnufær. Í febrúar árið 2016 greindist konan með krabbamein í brjósti og gekkst undir brottnám í byrjun apríl sama ár samliða uppbyggingu á brjósti.
Sjóvá almennar hafnaði kröfum konunnar um bætur vegna slyssins. Skaut konan þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að sömu niðurstöðu, að ekki væri hægt að sanna að þjáningar konunnar mætti rekja til slyssins.
Konan stefndi tryggingafélaginu fyrir héraðsdóm en þar var tekist á um hvort verki konunnar mætti að einhverju leyti rekja til slyssins eða hvort þeir stöfuðu eingöngu af krabbameininu og eftirköstum meðferðarinnar.
Í álitsgerðum lækna kom fram að konan hefði erið öryrki frá árinu 2012 vegna streitueinkennar og stoðkerfisverkja. Hafi hún verið á endurhæfingarlífeyri og stundað vinnu stopult. Eftir slysið árið 2015 hafi kvartanir hennar oriðð samfelldar, stöðugar og þrálátar, ólíkt því sem áður var.
Sjóvá almennar kvöddu vélaverkfræðing fyrir dóminn sem skilaði þeirri niðurstöðu að hröðun bílsins sem ók aftan á bíl komunnar hafi verið of lítil til að geta valdið varanlegum áverka. Var bíllinn á aðeins 6 km/klst hraða.
Það var niðurstaða dómsins að orsakatengsl milli verkja konunnar og árekstursins væru ósönnuð en ljóst er að aðrar orsakir geta klárlega verið fyrir heilsuleysi hennar þegar horft er til sjúkrasögu konunnar.
Voru Sjóvá almennar sýknaðar af kröfum konunnar en málskostnaður fellur niður.