Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Vísis að það væri til umræðu að stytta einangrun vegna kórónuveirunnar niður í 5 daga.
Þessa stundina þurfa þau sem fá jákvæða niðurstöðu úr PCR-prófi að sæta einangrun í sjö daga en það er greinilega ekki meitlað í stein. „Við verðum bara að sjá hverju fram vindur næstu daga við þessar aðstæður og hvernig við ráðum við þetta,“ sagði Willum.
„Svo höfum við létt á sóttkvínni og erum með til skoðunar að létta á einangrun. Einangrun er til að verja útbreiðslu í landinu, það eru fjölmargir heilbrigðisstarfsmenn og í öðrum atvinnugreinum sem eru ekki í vinnu.“