Fjörutíu félagar í aðalstjórn SÁÁ hvetja Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur til að gefa kost á sér í embætti formanns SÁÁ. Aðalfundur verður boðaður fljótlega vegna afsagnar Einars Hermannssonar úr embættinu og þar verður nýr formaður kjörinn.
DV hafa borist tvær stuðningsyfirlýsingar við Þóru frá stjórnarmeðlimum, annars vegar lýsa 20 karlar yfir hvatningu til hennar um að bjóða sig fram í embættið og hins vegar 20 konur. Yfirlýsingin frá körlunum er eftirfarandi:
„Við undirritaðir, félagar í aðalstjórn SÁÁ, tökum heilshugar undir þá hvatningu sem konur í samtökunum hafa sent frá sér, til Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, að gefa kost á sér sem næsti formaður SÁÁ. Við erum á því að Þóra Kristín sé einmitt sá leiðtogi sem samtökin þurfa á að halda á þessum tímapunkti og nýtur hún okkar fyllsta trausts til þess að leiða samtökin með farsælum hætti inn í nýja og breytta tíma.
Yfirlýsingin frá konunum er eftirfarandi:
„Eftirtaldar konur í aðalstjórn SÁÁ skora á Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, fjölmiðlakonu og upplýsingafulltrúa, að gefa kost á sér sem næsti formaður SÁÁ. Við teljum hana vera þann leiðtoga sem samtökin þarfnast í ljósi þeirra atburða sem gerst hafa og þeirra breytinga sem þurfa að verða í kjölfar þeirra. Þóra Kristín nýtur fulls trausts okkar og við teljum að hún geti leitt samtökin á farsælan hátt til móts við nýja tíma.