fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

„Samsæriskenningar eru fyrir tapara“

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 31. janúar 2022 06:05

Samsæriskenningasmiður að störfum. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar hafa margir orðið varir við svokallaðar samsæriskenningar og þá sem þær aðhyllast. Þessi hópur, sem aðhyllist samsæriskenningar, er kannski ekki stór en hann er oft hávær. Hann er sannfærður um að einhver leynileg öfl vinni að einu og öðru sem ekki þolir dagsljósið og sé til þess að skaða mannkynið. En hvaða fólk er í þessum hópi og á það yfirleitt eitthvað sameiginlegt?

Reynt var að varpa ljósi á þetta í nýrri evrópskri rannsókn. Í niðurstöðum hennar kemur fram að samsæriskenningar og stjórnmál séu nátengd og að meirihluti þeirra sem aðhyllast samsæriskenningar hafi tilhneigingu til að styðja flokka á ystu vængjum litrófs stjórnmálanna.

Samsæriskenningar verða oft til í kjölfar stórra atburða. Dæmi um þetta má sjá í heimsfaraldrinum og bandarísku forsetakosningunum 2020 og eftirmála þeirra þar sem Donald Trump og stuðningsfólk hans hefur sett fram margvíslegar samsæriskenningar sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Asbjørn Dyrendakl, prófessor í trúarbragðafræði við NTNU í Noregi, vann að rannsókninni. Í samtali við Norska ríkisútvarpið (NRK) sagði hann að niðurstöður hennar hafi staðfest ákveðnar hugmyndir. „Þegar sumir fá ekki þau pólitísku völd sem þeir telja að þeir eigi að fá eru þeir líklegri til að trúa samsæriskenningum. Þetta getur tengst því að þeir missa stjórnina,“ sagði hann.

15% Bandaríkjamanna trúa samsæriskenningum QAnon.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Nature. Þetta var stór rannsókn en tæplega 100.000 manns frá 26 löndum tóku þátt í henni. Þetta er stærsta rannsókn þessarar tegundar fram að þessu. Markmið vísindamannanna var að sjá hvort tengsl væru á milli pólitískra skoðana og tilhneigingar til að aðhyllast samsæriskenningar.

Þátttakendur voru beðnir um að staðsetja sig á pólitískum skala frá vinstri til hægri. Að auki voru þeir beðnir um að skýra frá hvaða stjórnmálaflokk þeir studdu. Út frá þessum niðurstöðum var skoðað hver tengslin voru á milli pólitískra skoðana og tilhneigingar til að aðhyllast samsæriskenningar.

Einn hópur reyndist skera sig áberandi mikið úr, það eru þeir sem aðhyllast pólitíska öfga. Þessi hópur reyndist hafa mesta tilhneigingu allra til að aðhyllast samsæriskenningar og á það bæði við um þá sem eru lengst til hægri og lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi. En þetta á einnig við um fólk sem er vinstrisinnað og á miðju hins pólitíska litrófs.

Munur á milli landa og þjóðfélagsstaða skiptir máli

Í ljós kom að í Mið- og Vestur-Evrópu er hægrisinnað fólk mun líklegra til að aðhyllast samsæriskenningar en í Suður-Evrópu er það fólk á vinstri vængnum sem er líklegra til þess. Vísindamennirnir segja að fólk aðhyllist frekar samsæriskenningar ef flokkarnir sem það styður eru ekki við stjórnvölinn í landsmálum.

Niðurstöðurnar sýna einnig að fólk með litla menntun er líklegra en betur menntað fólk til að aðhyllast samsæriskenningar. „Lítil menntur tengist ýmsum þáttum, til dæmis lágum launum og efnahagslegu óöryggi. Þetta eru þættir sem geta haft áhrif á skoðanir af þessu tagi. Með lítilli menntun býr fólk yfir minni hugrænni getu til að fallast á flóknar útskýringar,“ hefur NRK eftir Dyrendal.

Alex Jones er iðinn við að setja fram samsæriskenningar. Skjáskot:YouTube

 

 

 

 

 

 

 

Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Joseph Uscinski er ekki að skafa utan af hlutunum en hann hefur einbeitt sér að rannsóknum á samsæriskenningum og þeim sem aðhyllast þær. Í bók hans „American Conspiracy Theories“ frá 2014 er fyrirsögn eins kaflans: „Conspiracy Theories are for Loser“ (Samsæriskenningar eru fyrir tapara).

Dyrendal sagði að niðurstöður nýju rannsóknarinnar staðfesti þessa fullyrðingu Uscinski: „Rannsóknin okkar sýnir að þeir sem tapa í kosningum eru líklegri til að útskýra heiminn með samsæriskenningum. Það er þessi óánægja með að glata áhrifum sem stýrir þessu fólki. Útskýringunum er oft snúið þannig að þær benda annað en á mann sjálfan, að ósigurinn tengist manni sjálfum ekki neitt, það er alltaf einhver annar sem á sök á því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt