fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Leyndarhyggja og fúsk á vegum Alþingis

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 30. janúar 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er mjög óheppilegt að það hvíli leynd yfir þessum gögnum og við lifum það ekki að sjá gögnin þannig að þessu verður ekkert svarað á næstunni hvað skeði í rauninni.“

Þannig komst Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur að orði í viðtali í þætti mínum Sögu & samfélagi á Hringbraut sem sýnt var sl. miðvikudagskvöld. Hann vísar þarna til rannsóknar sinnar á endalokum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) en skjalasafn sjóðsins er harðlæst.

 

Vinsælasta fjármálafyrirtæki landsins

SPRON átti sér langa sögu, stofnaður 1932 af reykvískum iðnaðarmönnum sem bjuggu við skort á lánsfé, en áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum komu líka að málum — þeir vildu vinna á móti ægivaldi framsóknarmanna í bankakerfinu. Sjóðurinn varð með tíð og tíma mikilvægur aflvaki í höfuðborginni og ekkert annað sjálfstætt fyrirtæki hefur varið hlutfallslega jafnmiklu fé til þjóðþrifaverka. Þá var SPRON ítrekað valinn vinsælasta fjármálafyrirtæki landsins.

Líkt og flest önnur fjármálafyrirtæki lenti SPRON í hremmingum í bankakreppunni 2008. Sjóðurinn átti mikilla hagsmuna að gæta í viðskiptum við Kaupþing og vandræði margra viðskiptavina höfðu að vonum vond áhrif á reksturinn. Ljóst var að bæta yrði eiginfjárstöðu og stjórnendur SPRON — með Guðmund Hauksson forstjóra í broddi fylkingar — leituðu til erlendra lánveitenda sjóðsins. Gengið var til samninga við þá en fulltrúar fjármálaráðuneytis, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins lýstu sig reiðubúna til að styðja hverja þá raunhæfu lausn sem fyndist á vanda SPRON.

Fimmtudaginn 26. febrúar 2009 áttu fulltrúar SPRON fund með Fjármálaeftirlitinu og fundinn sátu líka fulltrúar erlendra kröfuhafa Sparisjóðsins. Erlendu lánveitendurnir lýstu á þessum fundi yfir eindregnum vilja til samninga og kváðust treysta stjórnendum SPRON. Fjármálaeftirlitið tók þessum tíðindum vel og framlengdi frest Sparisjóðsins til endurskipulagningar til 30. apríl sama ár.

 

 

Skjótt skipast veður í lofti

Skömmu eftir að settur var nýr seðlabankastjóri, Svein Harald Øygaard, gerbreyttist afstaða yfirvalda og síðla dags 21. mars barst SPRON bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem sagði að „starfsgrundvöllur sparisjóðsins væri brostinn“ og sæi eftirlitið sig knúið til að grípa inn í rekstur sjóðsins á grundvelli neyðarlaganna svokölluðu. Stjórn sjóðsins sá sér einskis annars úrkosta en setjast niður og semja tilkynningu um að hana skorti heimild til frekari rekstrar. Þar sem nefndin sat og samdi tilkynninguna barst Guðmundi Haukssyni forstjóra símtal frá fréttamanni sem kvaðst hafa verið boðaður á blaðamannafund sem hæfist eftir tuttugu mínútur. Efni fundarins væri yfirtaka ríkisins á SPRON. Menn trúðu vart eigin eyrum. Það fór því svo að flest starfsfólk SPRON heyrði fyrst af falli sjóðsins í beinni sjónvarpsútsendingu frá blaðamannafundi Gylfa Magnússonar viðskiptamálaráðherra.

Þar með var lokið 77 ára sögu eins farsælasta fjármálafyrirtækis þjóðarinnar sem aldrei hafði þurft á fyrirgreiðslu hins opinbera að halda en lagt mikið til samfélagsins með framlögum til menningar- og góðgerðarmála.

 

Farið með rangt mál

Eftir standa ótal spurningar sem ekki fást svör við. Áðurnefndur Árni H. Kristjánsson sagði í viðtalinu í þætti mínum sl. miðvikudagskvöld að margt benti til þess að Seðlabankinn hefði vikið frá faglegum vinnubrögðum í þessu máli fyrir pólitískan þrýsting og ríkið beitt „handaflsaðgerð til að knésetja sparisjóðinn“. Samningar við lánveitendur hafi virst vera í höfn og Sparisjóðurinn fengið frest til 30. apríl 2009 en verið sleginn af 21. mars. Árni sagði orðrétt í viðtalinu:

„Ég er engu nær um hvað gerðist á þessum síðustu dögum. Það sem blasir við er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands nokkrum dögum fyrir fallið og vitað var að krafa þeirra var að minnka bankakerfið og þeir horfðu til minni fjármálastofnana um að þær væru óþarfar. Þannig að auðvitað er mjög líklegt að það hafi haft áhrif. En það sem sló mig mest þegar ég var að rannsaka þessi gögn voru óheilindi stjórnvalda. Stjórnendur SPRON réru lífróður í nokkra mánuði og þetta virtist vera í höfn og síðan er bara skyndilega tekin ákvörðun um að slá SPRON af.“

Árni bendir í þessu sambandi á að sum fjármálafyrirtæki sem voru mun verr stödd hafi fengið að lifa og verið veittur umtalsverður fjárstuðningur úr ríkissjóði en aldrei hafi komið til þess að króna hafi verið greidd af fjármunum skattgreiðenda til SPRON. Peningar sem stjórnvöld hefðu veitt til SpKef og Byr væru aftur á móti allir glataðir.

Árni segir þá Svein Harald Øygard seðlabankastjóra, Gylfa Magnússon viðskiptamálaráðherra og Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa farið með rangt mál í fjölmiðlum um málefni SPRON í kjölfar þess að sjóðurinn var sleginn af. Þeir hafi farið rangt með eigið fé SPRON og eins þegar þeir hafi sagt að tíminn hafi verið útrunninn — það hafi hann alls ekki verið. Rúmur mánuður var til stefnu.

 

Ritstuldur staðfestur

Seinna átti eftir að koma út skýrsla rannsóknarnefnar Alþingis um fall sparisjóðanna en Árni segir þá skýrslu „hraklega smíð“ þrátt fyrir gríðarlegt fjármagn, nægan tíma (vinna nefndarinnar dróst úr hömlu) og her manns sem kom að verkinu. Þá séu niðurstöðurnar að mati Árna beinlínis rangar:

„Því var slegið fram að kostnaður vegna sparisjóðanna, falls þeirra, næmi um 300 milljörðum króna sem er náttúrlega af og frá. Upphæðin var um það bil tíu sinnum lægri, eða um 30 milljarðar, og að mestu vegna Sparisjóðsins í Keflavík og vegna fálmkenndra tilrauna ríkisstjórnarinnar til að bjarga þeim sparisjóði.“

En það var ekki einasta að niðurstöðurnar væru rangar að mati Árna:

„Síðan sé ég þegar ég fer að blaða í gegnum skýrsluna að ég er hreinlega að lesa upp úr eigin bók og það eru engar ýkjur þegar ég segi það því það átti eftir að verða staðfest og þetta var svo yfirgengilegt og ósvífnin svo stórkostleg og þetta eru allt saman háskólamenntaðir menn, starfsmenn nefndarinnar, sem ættu að vita betur og kunna að fara með heimildir.“

Rannsóknarnefndin hafði haft undir höndum hluta handrits Árna að sögu SPRON þar sem til stóð að hann aðstoðaði nefndina en ekki gat af því orðið. Hann hafði lagt blátt bann við að nefndin notaði handritið. Svo er að sjá sem þau skýru fyrirmæli hans hafi verið þverbrotin en Árni leitaði réttar síns eftir að skýrslan kom út:

„Við förum fram á það á vordögum 2014, ég og Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Sögufélags, að Alþingi skipaði sérfróða matsmenn til að skera úr um ritstuld. Skrifstofa Alþingis þumbaðist við í heilt ár en þá loks voru tveir matsmenn skipaðir og þeir skila 3. júlí 2015 álitsgerð þar sem ritstuldur er staðfestur og umfangsmikill. Í kjölfarið hefur skrifstofa Alþingis samband og vill leita sátta og ég og Guðni Th. mætum þarna á nokkra fundi á tímabilinu janúar til maí 2016. Sáttatilboðið fólst í því að ég myndi fá greidd vangoldin laun sem voru bara upp á tuttugu tíma … og ef til vill einhverja sáttagreiðslu en ég myndi ekki fjalla um málið á opinberum vettvangi. Þetta var semsagt skilyrt. Ég gekk ekki að þessu og viðræður sigldu í strand.“

 

Aflétta þarf leyndinni

Á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var gríðarlegum fjármunum, milljörðum á milljarða ofan, varið til vonlausra björgunaraðgerða við fjármálafyrirtæki sem öll eru horfin á braut fyrir löngu. Mestur hluti þessara fjárframlaga er farinn í súginn — og það að ósekju. Stjórnvöld efnahagsmála voru eftir fall ríkisstjórnar Geirs H. Haarde sem höfuðlaus her: Fjármálaeftirlitið án forstjóra, stjórnarformaður þess horfinn á braut og bankastjórn Seðlabankans hafði verið vikið frá störfum. Nýr seðlabankastjóri var ókunnur aðstæðum hér og hafði aðeins setið að störfum í þrjá daga þegar málefni SPRON komu til kasta hans.

Á sama tíma og SPRON var sleginn af biðu fjárfestingarbankans Straums-Burðaráss sömu örlög en flest bendir til þess að bæði þessi fjármálafyrirtæki hafi bæði verið vel rekstrarhæf og útlit fyrir að samningar við kröfuhafa tækjust. Enn hefur ekki verið skýrt hvers vegna Fjármálaeftirlitið lagði skyndilega svo mikið kapp á að taka yfir rekstur þessara tveggja félaga. Samanburðurinn við fjárausturinn í fjármálafyrirækin sem fóru í þrot er sláandi. Því hefur til dæmis enn ekki verið svarað hvers vegna Fjármálaeftirlitið veitti SpKef og Byr ítrekaðar undanþágur til rekstrar þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall sjóðanna væri undir lögboðnu lágmarki.

Því fer víðsfjarri að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar fall SPRON og Straums og þarft að aflétta þeirri leynd sem hvílir yfir gögnum er málin varða. Sjálfstæðir fræðimenn og fræðistofnanir þurfa að geta rannsakað þennan mikilsverða þátt í Íslandssögunni sem hafði áhrif á alla landsmenn. — Sér í lagi í ljósi þeirra alvarlegu annmarka sem virðast vera á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina og Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur hefur bent á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu