Þegar Björn var þriggja ára gamall skildu foreldrar hans en hann segir í viðtalinu að hann hafi því alltaf átt „helgarpabba“. Hann segir að tímarnir með pabba sínum hafi verið rosalega góðir.„Ég kynntist honum ekki mikið á virkum dögum svo hann var ekkert að reka mig í skólann, segja mér að koma snemma heim eða að taka til í herberginu mínu, ég sá bara hans bestu útgáfu,“ segir Björn.
Hann segir pabba sinn hafa verið rosalega vel metinn af vinum sínum. „Hann dó árið 1992 og ég er ennþá að hitta fólk sem segir mér hvað hann hafi verið frábær.“
Pabbi Björns lést úr krabbameini þegar hann var aðeins 46 ára gamall. „Hann fær krabbamein í nýrun fyrst og það er tekið á því þannig að annað nýrað er fjarlægt. Ég man vel eftir því sumarið ’92 þegar hann flutti á Siglufjörð, í sinn heimabæ, og var að ná lífi sínu aftur í réttar skorður. Hann keypti sér veitingastað og bjó þar fyrir ofan og þarna leið honum svo vel,“ segir Björn en seinna á því ári lést pabbi hans eftir að veikindin komu upp aftur.
Björn segir þá frá sínum seinustu minningum með pabba sínum þegar hann var heilbrigður. „Við förum í göngutúr um Siglufjörð og hann var að sýna mér bæinn, hvar hann spilaði fótbolta þegar hann var lítill og svona,“ segir hann.
„Ég var mikið hjá honum á spítalanum áður en hann dó. Ég sá að hann var að hrörna en ég hélt alltaf í vonina, sem er svo ótrúlega ævintýraleg hugsun.“
Björn segir þá frá því hvernig hann komst að því að pabbi hans væri dáinn. Hann var staddur í skólaferðalagi í Reykjaskóla þegar kennarinn kallaði á hann og bað hann um að koma með sér inn á skrifstofu. Þar sagði mamma hans honum í gegnum síma að pabbi hans væri dáinn.
Hann segir að það megi alveg deila um hvort það hefði verið hægt að tækla þetta betur. „Hún spyr hvort ég vilji að hún komi og sæki mig en ég segist vilja vera þarna áfram, ætli ég hafi ekki bara verið að reyna að fresta þessu og þeirri staðreynd að þetta væri raunverulegt,“ segir hann.
„Ég gleymi því aldrei þegar ég fer aftur fram. Kennarinn fer á undan mér og segir krökkunum að ég sé búinn að missa pabba minn og þegar ég kem fram tekur bara á móti mér þrúgandi þögn og allir horfðu á mig en enginn vissi hvað hann átti að segja.“
Hægt er að lesa viðtalið við Björn í heild sinni á vefsíðu Fréttablaðsins.