Bæði Ríkisútvarpið og Fréttablaðið birtu í gærkvöldi fréttir um að bandaríski leikarinn Will Ferrell hafi spurt hvort hann mætti keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd. „Could I be Iceland’s singer in Eurovision this year?“ spurði aðgangur undir nafni leikarans um klukkan 20 í gærkvöldi og fljótlega voru báðir fjölmiðlarnir búnir að gera frétt um áhuga Ferrell á því að keppa fyrir Ísland.
Will Ferrell er þó ekki með opinberan aðgang á Twitter og því ljóst að um gervi-aðgang væri að ræða.
Fjölmiðlarnir áttuðu sig þó ekki á því til að byrja með að það hafi ekki verið hinn eini og sanni Ferrell sem væri að lýsa yfir þessum áhuga.
„Ferrell spyr hvort hann megi syngja fyrir Íslands hönd“ skrifaði RÚV í fyrirsögninni sinni. „Bandaríski gamanleikarinn Will Ferrell heldur áfram að sýna áhuga sinn á þátttöku Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hann spurði á Twitter í kvöld hvort hann mætti syngja fyrir hönd landsins í keppninni í ár. Viðbrögðin virðast nánast á einn veg, all nokkuð jákvæð,“ stóð svo um færslu gervi-aðgangsins í fréttinni.
Fréttablaðið fór svipaða átt og ríkisrekni fjölmiðillinn. „Will Ferrell vill keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision“ var fyrirsögnin hjá Fréttablaðinu.
Sem betur fer áttuðu báðir fjölmiðlarnir sig fljótlega á því að það hafi ekki verið sjálfur Ferrell sem birti færsluna. Fréttablaðið birti leiðréttingu hjá sér rúmum klukkutíma eftir að fréttin birtist þar sem það sagði að færslan væri ekki í raun og veru frá leikaranum vinsæla.
„Þrátt fyrir að ekki hafi reyndist vera um hinn eina sanna Will Ferrell að ræða, hefur hinu falsaða tísti verið mjög vel tekið og hefur Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri sjálfur tekið til máls í svari við henni, en það er einmitt RÚV sem stýrir þátttöku Íslands í Eurovision,“ er skrifað í uppfærslu á frétt Fréttablaðsins.
RÚV lét sína frétt einnig standa í rúman klukkutíma, fréttin var þó upprunalega birt eftir að Fréttablaðið var búið að uppfæra sína frétt. „Fréttin var uppfærð klukkan 1:27 með þeim upplýsingum að Ferrell sjálfur héldi ekki úti umræddum Twitter-reikningi,“ er skrifað í uppfærsluna hjá RÚV.
DV óskar kollegum sínum að sjálfsögðu góðs gengis eftir þessi skondnu mistök sem er góð áminning um að trúa ekki öllu sem finnst á alnetinu.