Bjarni Sævarsson, hrossabóndi í Arnarholti, sendir Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, kaldar kveðjur í opnu bréfi sem birtist á Vísi í dag.
Inga er harðlega á móti blóðmerahaldi á Íslandi og hefur ekki legið á þeirri afstöðu sinni. Meðal annars hefur hún í tvígang lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að blóðtaka úr fylfullum hryssum (blóðmerum) verði bönnuð hér á landi. Málefni blóðmera hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna mánuði eftir að dýraverndarsamtökin AWF/TSB birtu heimildamyndband frá Íslandi sem sýndi slæma meðferð hryssa á nokkrum blóðtökustöðum hér á landi.
Bjarni er afar ósáttur með afstöðu Ingu í málinu en hann útskýrir fyrir henni í pistlinum hvers vegna hann stundar blóðtöku.
„Ég er ungur hrossabóndi, hef ekki verið talinn til efnamanna og verð það trúlega aldrei. Síðastliðin ár hafa ekki verið landbúnaðinum hagfelld, afurðaverð lágt og hefur engan veginn haldið í við verðlagsþróun. Ég keyri ekki um á nýjum Land cruiser heldur klæðist ég gömlum stígvélum og rifinni úlpu við mitt brauðstrit, hef ekki ráð á öðru. Afar lítið rými hefur verið í hinum hefðbundnu búgreinum fyrir ungt fólk, því fór ég þá leið að halda merar til blóðgjafar því það er eina búgreinin þar sem eitthvað pláss hefur verið fyrir nýja aðila,“ segir hann.
Bjarni fullyrðir að hann og sitt samstarfsfólk gangi ekki á heilsu meranna. „Annars væri þetta ekki og hefði ekki verið stundað í áratugi með góðum árangri. Reynslan lýgur ekki. Þær eru hraustar og því fer fjarri að þær séu einhver villidýr sem mega ekki sjá mann án þess að sturlast eins haldið hefur verið fram af mikilli vanþekkingu,“ segir hann.
Þá segist Bjarni elska merarnar sínar og að þær elski hann á móti, hann líti til þeirra nánast daglega allt árið um kring. Hann segir þær koma til sín og heilsa sér og að þær séu ljúfar og rólegar. „Í mínum búskap hef ég keypt að allskonar hryssur, sumar styggar og ótamdar. Þær undantekningalaust spekjast fljótt í mínu stóði og verða ekki minni djásn í mínum augun en þær sem ég hef fengið gæfar,“ segir hann.
Undir lokin á pistlinum sendir hann Ingu væna pillu. „Nú hefur þú á undanförnum misserum farið mikinn og haldið því fram að þú ætlir þér að útrýma fátækt ásamt því að vera mikill dýravinur. Því finnst mér skjóta skökku við að þú ætlir þér að svipta mig lifibrauðinu, sem var fyrir af skornum skammti og auk þess framundan gífurlegar hækkanir aðfanga í landbúnaði,“ segir hann.
„Aukin heldur vilt þú neyða mig til að slátra mínum bústofni, merunum sem ég elska, með því að banna þeim að sjá sér farborða. Undarleg dýravernd það.“
Bjarni botnar pistilinn með því að segja Ingu að skammast sín. „Þar heggur sá er hlífa skyldi kæra Inga. Þú ætlar að setja mig á götuna, rúinn æru og heiðri og skipa merunum mínum í ómerkta gröf. Þú ættir að skammast þín fyrir skinhelgina.“