Það er auglýsingaherferð Goða og Kjarnafæðis sem hefur verið á vörum margra síðan hún fór í birtingu á dögunum. Í auglýsingunni sem um ræðir er notast við rammíslensk blótsyrði í tilefni af því að nú fari fólk að blóta þorranum, þó svo að þetta séu auðvitað tvær mismunandi merkingar á sögninni að blóta.
„Nú er þorri og þá er um að gera að blóta almennilega. Veldu gæði, veldu helvítis, andskotans, djöfulsins Goða og Kjarnafæði,“ segir í auglýsingunni sem um ræðir.
Auglýsingin er vægast sagt umdeild en töluverður fjöldi fólks hefur látið í ljós skoðun sína á henni í netheimum í dag. Á meðan fjölmargir hafa gaman að þessari óhefðbundnu auglýsingu þá finnst öðrum hún alveg skelfileg.
Séra Úlfar Guðmundsson, fyrrverandi sóknarprestur á Eyrarbakka, er til að mynda einn af þeim sem er ekki hrifinn af auglýsingunni. „Ég hef einlægan áhuga fyrir góðu íslensku máli. Ég hef því ákveðið að sniðganga vörur frá Kjarnafæði og Goða vegna blótsyrða í auglýsingum,“ segir hann í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni.
Fjölmiðlamaðurinn Magnús Hlynur Hreiðarsson deilir færslu Úlfars svo áfram og tekur undir með honum. „Já, ég er sammála séra Úlfari, þetta eru að mínu mati kjánalegar og skrýtnar auglýsingar frá fyrirtækjunum,“ segir Magnús.
Því verður þó að halda til haga að Magnús er Sunnlendingur í húð og hár og er hann því væntanlega SS maður. Gera má ráð fyrir því að sniðganga Magnúsar á vörum Kjarnafæðis muni ekki hafa mikil áhrif á rekstrarreikningana fyrir norðan.
Í athugasemdunum við færslu Magnúsar má sjá að fólk hefur afar skiptar skoðanir á auglýsingunni. „Mér ofbauð þessi auglýsing,“ segir til dæmis ein kona í athugasemdunum á meðan önnur segir að auglýsingin sé „mjög hressandi og skemmtileg“.
Svo virðist vera sem fólk skiptist í tvo hópa í þessu máli en skiptingin virðist fara svolítið eftir aldri fólks, það er að segja að þau sem eru eldri virðast vera viðkvæmari fyrir blótsyrðunum.
„Ósmekklegt og óþarfi að kenna börnum að bölva af auglýsingum,“ segir til dæmis ein eldri kona sem ætlar sér að fylgja fordæmi Úlfars og sniðganga vörurnar.
Þá hittir ein kona svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hún bendir fólkinu á að þetta sé einmitt markmiðið með auglýsingunni. „Auglýsingar eiga að fá fólk til að taka eftir vörunni og það gerði þessi svo sannarlega. Hver man ekki eftir helvítis Kjarnafæði og Goða þegar þorramaturinn verður skoðaður?“
DV ræddi við Andrés Vilhjálmsson, markaðsstjóra Kjarnafæðis, um auglýsinguna og hvernig hún varð til. „Þessi hugmynd kom inn á teikniborðið hjá okkur þegar við ákváðum að gera svona óhefðbundna auglýsingu, enda er ekki beint hefðbundið landslag í þorranum í ár. Þorrablótin detta út og færast meira inn á heimilin og svoleiðis út af samkomutakmörkunum,“ segir Andrés.
Andrés er að sjálfsögðu meðvitaður um að það að blóta þýðir ekki það sama og að blóta. „Þarna er í raun og veru bara verið að leika sér aðeins að tungumálinu. Við erum að nota gömul íslensk blótsyrði þarna sem hafa verið notuð víðsvegar og erum að setja þau inn í þekkt slagorð fyrir vörumerkið,“ segir hann.
„Það er náttúrulega vitað mál og við vitum það vel að það að blóta þorranum og að það að blóta, bölva, er ekki það sama. Það er bara smá orðaleikur þarna að við séum að nota þessi blótsyrð. Megin tilgangurinn með þessu öllu var að vekja eftirtekt, umræðu um þorramatinn og slíkt. Það hefur tekist og eins og ég segi, þetta er bara smá kómík.“
Aðspurður segist Andrés ekki hafa miklar áhyggjur af fólkinu sem er ekki hrifið af auglýsingunni. „Nei, við berum mikla virðingu fyrir skoðunum fólks og það er ekki meiningin með þessari auglýsingu að særa né neitt þess háttar. Þessi munnsöfnuður tekur fljótt yfir og við biðjumst afsökunar ef við höfum gengið of langt hjá sumum,“ segir hann
„Blessunarlega virðist vera sem mun fleira fólk hafi gaman að auglýsingunni.“
Þessa helvítis, andskotans, djöfulsins auglýsingu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: