Einmanalegur íslensku fáni í hafi af ungverskum fánum í handboltahöllinni í Búdapest í gærkvöld hefur vakið mikla athygli. Myndin virðist vera til í nokkrum útgáfum, sumum merktum fréttastofum, öðrum ómerktum. Á sigurleik Íslendinga gegn Ungverjum á EM í handbolta í gær voru um 20 þúsund ungverskir áhorfendur og um 500 íslenskir. Stemningin var ótrúleg og yfirgengilegur hávaði í höllinni.
Einn íslensku stuðningsmannanna lenti innan um hundruð Ungverja í höllinni. Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður og útvarpsstjóri, hefur upplýst hver Íslendingurinn með staka íslenska fánann er. Það er Kristín Steinþórsdóttir, sjúkraliði frá Selfossi. Hún er stödd ásamt systur sinni í Búdapest og sér alla leiki íslenska liðsins. Hún segir að upplifunin í gær hafi verið einstök og hún lofar viðmót Ungverjana sem hafi verið allt annað en tapsárir:
„Ég var ein þarna því systir mín sem kom út með mér var veik og komst ekki á þennan leik. Þetta var stórkostleg upplifun. Ungverjarnir voru sorgmæddir yfir því hvernig leikurinn fór en samt þurfti ég ekkert að óttast. Svo margir eru búnir að segja við mig hvað ég hafi verið hugrökk og „Lifðirðu þetta af?“ er spurning sem ég hef fengið. En það voru allir bara rosalega elskulegir við mig, mjög gott viðmót, ég var með fánann á lofti og fólk var alltaf að taka af mér myndir og brosa til mín,“ segir Kristín sem lofar gott viðmót Ungverjana. Ungverjar eru mikil íþróttaþjóð en miðað við upplifun Kristínar í gær bera þeir virðingu fyrir andstæðingum sínum og kunna að taka tapi.
„Þetta var mikil upplifun og æðislega gaman, Ungverjarnir voru dásamlegir og sko engar bullur,“ ítrekar Kristín.
Kristín ætlar að fylgja íslenska liðinu á alla leikina og síðan dveljast einhverjar vikur í Búdapest enda heldur hún mikið upp á borgina. „Þetta er uppáhaldsborgin mín, hún er yndislega falleg,“ segir Kristín sem nýtur til fulls handboltaævintýrisins með strákunum okkar í einni af fallegri borgum Evrópu.