Guðni B. Guðnason, fyrrverandi kaupfélagsstjóri, lést á Landspítalnum í Fossi þann 15. janúar á 96. aldursári. Greint er frá andlátinu á vef Morgunblaðsins. Eiginkona Guðna, Valgerður Þórðardóttir, lést árið 2005 en þau eignuðust þrjá syni.
Einn þeirra er Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sem hefur staðið í ströngu fyrir land og þjóð undanfarin tvö ár og þarf nú að kveðja föður sinn. Þórólfur er næstelstur þriggja sona Guðna og Valgerðar en bræður hans eru Gunnar, sem er menntaður arkitekt, og Guðni, sem er tölvunarfræðingur og starfar sem ráðgjafi.
Guðni B. var fæddur þann 1.apríl árið 1926 í Austur- Landeyjum í Rangárvallasýslu en foreldrar hans voru Jónína Guðmunda Jónsdóttir frá Austur-Búðarhólshjáleigu í Austur-Landeyjum og Guðni Guðjónsson frá Brekkum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Guðni var þriðji í röð 11 systkina.
Hann giftist eins og áður segir Valgerði sem var frá Sléttubóli í Austur-Landeyjum. Í æviágripinu á vef Morgunblaðsins kemur fram að Guðni hafi fengist við ýmis störf frá unga aldrei en starfsferillinn hafi síðan snúist um rekstur kaupfélaga. Í ársbyrjun 1956 varð hann kaupfélagsstjóri kaupfélagsins Bjarkar á Eskifirði og þangað fluttist fjölskyldan en þá var Þórólfur, sem er fæddur árið 1953, tveggja ára gamall. Fjölskyldan bjó á Eskifirði allt til ársins 1962 en þá var flutt búferlum til Vestmannaeyja og var Guðni kaupfélagsstjóri þar til loka árs 1972 þegar hann varð aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og gegndi því starfi til aprílloka árið 1992.
Nánar er fjallað um ævi Guðna B. Guðnasonar á vef Morgunblaðsins.