fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Ingu Sæland úthúðað í harðorðu bréfi frá reiðum bónda – „Þér er nefnilega sama um fátæka bændur. Þú ert hræsnari“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 19. janúar 2022 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, er harðlega á móti blóðmerahaldi á Íslandi og hefur ekki legið á þeirri afstöðu sinni. Meðal annars hefur hún í tvígang lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að blóðtaka úr fylfullum hryssum (blóðmerum) verði bönnuð hér á landi.

Málefni blóðmera hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna mánuði eftir að dýraverndarsamtökin AWF/TSB birtu heimildamyndband frá Íslandi sem sýndi slæma meðferð hryssa á nokkrum blóðtökustöðum hér á landi.

Nú greinir Inga frá því að henni hafi borist bréf frá blóðmerabónda sem er ekki sáttur með framgöngu hennar á þingi. Birtir hún texta bréfsins á Facebook síðu sinni, en í bréfinu er hún sökuð um að vera dýraníðingur og bera ekki hag fátækra bænda fyrir brjósti sem geri hana að hræsnara.

„Sæl fru inga sæland.

Er í alvörunni ekki gerð nein krafa um að það sem þið á alþingi látið út úr ykkur í pontu, sé satt og rétt. Þegar þú lætur frá þér frumvarp, sem hefur áhrif á þó nokkuð marga, er þá ekki lágmarkskrafa að þið hafið kannað allar hliðar og hafið réttar upplýsingar. Ekki afbakaðar og tilhæfulausar lygar.“

Þessi ónefndi bóndi telur ljóst að Ingu sé í raun sama um hryssurnar, því ef blóðtakan verður bönnuð þá þurfi að slátra þeim.

„Við skulum bara horfast í augu við það að þér er nákvæmlega sama um þessar hryssur. Þér er alveg sama þó það þurfi að slátra þeim flestum.

Heldur þú að þetta séu einhverjir einnota hlutir? Ég veit hvað þær heita, hvernig þær eru á litinn, hvernig skapgerð þær hafa. Hvað varðar þig líka um það þó maður liggi andvaka á gamlársnótt með áhyggjur af merunum hvort þær hafi ætt yfir margar girðingar eitthvað út í loftið, af því að einhverjir vanvitar telja það skyldu sína að skjóta upp flugeldum. En þér er alveg sama, því þú ert dýraníðingur.“

Bóndinn segist sjálfum vera annt um hryssur sínar og hann sé ekki dýraníðingur þó að hann taki úr þeim blóð. Inga ætti að taka tillit til þess, sem talsmaður fátækra, að bændur séu margir fátækir og hart sé orðið í ári hjá þeim. Það skjóti því skökku við að Inga ætli að hafa af þeim tekjurnar.

„Mér er ekki sama um þessar merar, mér þykir vænt um þær og margar hafa fylgt mér í mörg ár. Ég er ekki dýraníðingur þó ég taki blóð úr þessum merum og við sem erum í þessu flest, reynum að hugsa eins vel um þær og við getum.

Þú þykist líka vera talsmaður fátækra. Bændur eru flestir fátækir og nú þegar allt hækkar þá verður enn erfiðara að búa. Við erum að framleiða matvæli og við þurfum tekjur eins og aðrir til að lifa af.

Nú þegar þú ætlar að reyna að taka af okkur þennan tekjustofn, varstu þá búin finna einhverjar lausnir handa okkur, koma einhverjar aðgerðir svo við getum haldið áfram. Nei ég hélt ekki. Þér er nefnilega sama um fátæka bændur. Þú ert hræsnari“

Inga greindi frá því í samtali við Vísi í dag að líklega hafi verið slegið met í umsögnum við frumvarp hennar um bann við blóðmerahaldi og segist hún ánægð með þennan mikla stuðning. „Íslendingar vilja ekki sjá þessa meðferð á hryssunum.“

Umsagnir hafa meira að segja borist frá Spáni, ein frá samtökum sauðfjárbænda og annað frá samtökum svínabænda og svona mætti áfram telja.

Inga telur að fyrirtækið Ísteka sem tekur við blóðinu úr hryssunum sem og vinnur það sjálft hafi staðið að því að fá viðskiptavini sína til að senda umsagnir inn. „Fyrirtækið berst um á hæl og hnakka og gerir hvað sem er.“

Áhugasamir geta lesið umsagnirnar sem hafa borist hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar