Ákveðið hefur verið að fella niður skólahald hjá nemendum 7-10. bekkja Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir að húsnæði skólans á Eyrarbakka var rýmt og lokað vegna myglu.
Í tölvupósti sem Páll Sveinsson skólastjóri sendi á foreldra nemenda jemur fram að stjórnendur skólans hafi síðla haust 2021 óskað eftir því við umsjónarmanna fasteigna hjá sveitarfélaginu Árborg að gerði yrði loftgæðaúttekt á húsnæði skólans á Eyrarbakka. Verkfræðistofan EFLA var fengin til verksins í desember 2021 og voru niðurstöður úr sýnatöku og drög að ástandsskýrslu húsnæðis sendar stjórnendum skólans og Árborgar nú fyrir helgi.
„Í niðurstöðunum kemur fram að myglu er að finna í húsnæðinu. Um leið og bráðabirgðaniðurstöður lágu fyrir óskuðu stjórnendur eftir fundi með stjórnendum sveitarfélagsins til að ræða viðbrögð við skýrslunni. Á fundi sem fram fór 17. janúar var ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að halda úti starfsemi í húsunum á Eyrarbakka og þau þar af leiðandi rýmd strax og vinna hafin við að finna tímabundið kennsluhúsnæði fyrir unglingastig skólans,“ skrifar Páll í tölvupóstinum sem DV hefur undir höndum.
Á meðan lausna er leitað hefur því stjórnendateymi Barnaskólans ákveðið að fella niður skólahald, eins og áður segir, út vikuna hjá unglingastigi skólans og voru nemendur og starfsmenn upplýstir um málið í hádeginu. Stefnt er að því að kennsla hefjist í nýju húsnæði mánudaginn 24. janúar næstkomandi.