EM í handbolta stendur nú yfir í Ungverjalandi og Slóvakíu. Ísland hóf þátttöku sína á mótinu með sigri gegn Portúgal á föstudagskvöld, 28-24. Frammistaða liðsins þótti mjög góð og vekur vonir um að liðið geti náð langt á þessu móti. Íslendingar hafa ekki náð toppárangri á stórmóti í handbolta síðan liðið náði 5. sæti á EM árið 2014.
Á EM keppa 24 lið og skiptast niður í sex fjögurra liða riðla. Tvö lið úr hverjum riðli komast áfram í milliriðla og standa því eftir 12 bestu lið Evrópu þegar riðlakeppninni lýkur.
Íslendingar eru í B-riðli ásamt Portúgölum, Hollendingum og Ungverjum. Tvö lið komast áfram í milliriðil og tekur það lið sem sigraði hitt liðið sem kemst áfram þau stig með sér inn í milliriðilinn (eða eitt stig hvort ef jafnrefli varð í innbyrðisviðureigninni). Í milliriðli verður att kappi við bestu liðin úr A og C riðli. Má þar eiga von á andstæðingum á borð við Danmörku, Króatíu og Frakkland.
Næsti leikur Íslands í B-riðlinum er gegn Hollandi á sunnudagskvöld kl. 19:30. Fyrir mótið hefðu Íslendingar talist sigurstranglegir gegn Hollandi en í fyrsta leiknum gerðu Hollendingar sér lítið fyrir og unnu heimamenn Ungverja. Er því ljóst að leikurinn gegn Hollandi verður mjög erfiður.
Síðasti leikur okkar manna í riðlinum verður á þriðjudag en þá verður keppt við Ungverjaland kl. 17.
Nánar má lesa um mótið á vefnum handbolti.is