Frá því kl. 17 í gær til 5 í morgun sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 90 málum. Voru mörg þeirra tengd ölvun og hávaða í heimahúsum. Þrír voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.
Frá þessu segir í dagbók lögreglu. Þar greinir frá því að laust fyrir kl. 2 í nótt var tilkynnt um innbrot í bíl í miðborginni. Var búið að brjóta rúðu og stela verðmætum.
Um hálffjögur-leytið var maður handtekinn í hverfi 108 og vistaður vegna ástands síns í fangageymslu lögreglu.
Laust fyrir kl. 21 í gærkvöld voru afskipti höfð af manni í Hafnarfirði. Var hann grunaður um vörslu og neyslu fíkniefna. Efnin voru haldlögð og skýrsla skrifuð.
Um hálftíu leytið í gærkvöld var tilkynnt um þjófnað í verslun í Breiðholti. Var maður stöðvaður er hann var að yfirgefa verslunina með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Vettvangsskýrsla var skrifuð.
Rétt fyrir níu í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp í Grundarhverfi. Var bíl ekið á ljósastaur. Ekki urðu slys á fólki. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Bíllinn var fluttur af vettvangi með Króki.
Á þriðja tímanum í nótt var maður handtekinn í Grafarvogi þar sem hann var með ónæði. Var hann vistaður sökum ástands síns í fangageymslu lögreglu.