fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Bragi Páll fékk ekki listamannalaun og er ósáttur – „Ég á tvö börn og íbúð og bíl sem þarf að borga af“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 13. janúar 2022 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spennuþrungnir dagar eru að baki hjá listamönnum þjóðarinnar sem beðið hafa á milli vonar og átta eftir því að fá að vita hvort þeir fá starfslaun í ár eða ekki. Núna liggja niðurstöðurnar fyrir, mörgum til gleði og léttis, öðrum til vonbrigða og sárrar gremju.

Sjá einnig: Þau fá listamannalaun árið 2022

Einn þeirra sem fékk höfnunarbréf er rithöfundurinn Bragi Páll. Hann sló í gegn með skáldsögunni Arnaldur Indriðason deyr sem var ein af söluhæstu bókum nýliðins árs og fékk yfirleitt góðar viðtökur gagnrýnenda.  Bragi Páll fær engin starfslaun. Hann er mjög ósáttur með þá niðurstöðu og skrifaði eftirfarandi, lokaða Facebook-færslu um málið:

„Engin ritlaun handa mér þetta árið. Opnaði tölvupóstinn áðan og las hina viðbjóðslegu orðarunu sem ákvarðar hvernig árið verður hjá þorra íslenskra listamanna: Ekki var unnt að verða við umsókn þinni að þessu sinni.

Þrátt fyrir að hafa skrifað fjórar bækur og hver þeirra hlotið meiri athygli en sú sem kom á undan og þrátt fyrir að hafa fyrir jólin sent frá mér eina mest seldu bók flóðsins þá var ekki unnt.

Ég á tvö börn og íbúð og bíl sem þarf að borga af. Það er ekki hægt að lifa svona. Ekki hægt að bjóða heilli starfsstétt upp á að lifa í byrjun hvers árs í óvissu um hvort viðkomandi sé á launum það árið.“

Þetta kerfi þarf gagngera yfirhalningu, það eru allir listamenn sem ég hef rætt við sammála um, jafnt þeir sem fá úthlutað og svo við hin sem sveltum. Horfum á andlegan og veraldlegan ávinning sem hlýst af íslenskri listsköpun á hverju ári, þó flestir þar hangi á horriminni.

Skoðum kerfið sem Norðurlöndin nota, mun manneskjulegri og meiri framtíðarsýn. Hættum ógagnsæu fúski og gerum betur. Plís.“

Tíðindin mikið bakslag

Bragi Páll fékk sex mánaða starfslaun í fyrra og þrjá mánuði árið þar á undan. Launin í fyrra gerðu honum kleift að skrifa bókina sem sló í gegn fyrir jól. Hann kallar eftir manneskjulegra fyrirkomulagi starfslaunanna, fyrirsjáanleika og gegnsæi. Í samtali við DV segir hann að fréttirnar núna séu bakslag:

„Þetta er algjört bakslag, þó ég hafi selt vel fyrir jólin þá þarf að selja mun meira en ég hef gert til þess að hægt sé að lifa á sölunni einni. Ef fólk vill leggja niður listamannalaun þá er það gott og blessað, en það mun þá líka hafa þau áhrif að hér verða starfandi 3-5 höfundar, þeir einu sem geta haft laun af sölunni einni. Ef við viljum hafa þannig umhverfi þá má kannski prófa það í nokkur ár og sjá hvernig það leggst í landann.“

Bragi Páll bendir á að mikið skortir á gagnsæi í starfslaunaúthlutunum:

„Einnig er ágætt að benda á að Rannís þarf ekki að færa nein rök fyrir úthlutunum sínum, sem þau taka samviskusamlega fram í hverjum tölvupósti sem þau senda út; bent er á að samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi ekki að veita rökstuðning þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menningar eða vísinda. Þannig gagnsæið er nákvæmlega ekkert, við skrifum umsóknir í von og óvon og krossum svo puttana að úthlutunarnefndir sjái aumur á okkur og úthluti nokkrum bitlingum.“

Segir að listamannalaun borgi sig fyrir samfélagið

Bragi Páll er sannfærður um að listamannalaun borgi sig fyrir samfélagið enda hafi ríkissjóður mikinn ávinning af listsköpun:

„Ég held líka að þeir sem tala hæst gegn ritlaunum geri sér ekki grein fyrir þeim ávinning sem ríkissjóður fær til baka af listsköpum, en það hleypur á milljörðum, miðað við þær nokkur hundruð milljónir sem lagt er í listamannalaun. Þetta kemur allt margfallt til baka, þannig listamannalaun eru í raun eins og skatta-afsláttur fyrir restina af þjóðinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Skellt í lás á Bryggjunni brugghús og eigendur gjafabréfa áhyggjufullir

Skellt í lás á Bryggjunni brugghús og eigendur gjafabréfa áhyggjufullir
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna