Þetta eru niðurstöður nýrrar bandarískrar rannsóknar sem var unnin af vísindamönnum við tvo háskóla. 70.000 COVID-19-sjúklingar tóku þátt í henni.
Rannsóknin hefur ekki verið ritrýnd sem þýðir að ekki hefur verið farið ofan í saumana á henni af óháðum vísindamönnum sem komu hvergi nálægt henni. En ef niðurstöðurnar eru réttar þá er fullt tilefni til bjartsýni. AFP skýrir frá þessu.
Rannsóknin sýnir að Ómíkron hefur meiri mótstöðu gegn bóluefnum en fyrir afbrigði en um leið eru veikindi fólks almennt vægari af völdum Ómíkron. Þeir sem voru smitaðir af Ómíkronafbrigðinu voru í 90% minni hættu á að deyja af völdum COVID-19 en þeir sem voru með Deltaafbrigðið.
Hvað varðar sjúkrahúsinnlagnir þá voru helmingi minni líkur á að þeir sem voru smitaðir af Ómíkron þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús og 75% minni líkur á að þeir þyrftu að leggjast inn á gjörgæsludeild.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þeir sem voru lagðir inn á sjúkrahús vegna Ómíkronsmits dvöldu þar að meðaltali í einn og hálfan dag en þeir sem voru smitaðir af Deltaafbrigðinu lágu að jafnaði inni í fimm daga.
Rochelle Walensky, forstjóri bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar (CDC) segir að í rannsókninni hafi verið tekið tillit til ýmissa þátta sem geta haft áhrif, til dæmis aldurs, kyns, fyrri sýkinga, bólusetninga og krónískra sjúkdóma.