Þetta segir í bréfi sem áttatíu samtök, sem vinna að staðreyndakönnunum, hafa sent frá sér. Í bréfinu segir að á YouTube sé efni frá hópum á borð við Doctors for the Truth þar sem röngum upplýsingum sé dreift um heimsfaraldur kórónuveirunnar og myndbönd sem styðja þær lygar sem hafa komið frá Donald Trump og stuðningsmönnum hans um kosningasvindl í síðustu forsetakosningum.
Bréfið var sent til Susan Wojcicki, forstjóra YouTube. Í því segir að YouTube leyfi ósvífnum aðilum að nota miðilinn til að hafa áhrif á fólk og nýta sér það og til að skipuleggja og fjármagna starfsemi sína. YouTube sé „stór rás“ lyga.
YouTube er í eigu netrisans Google. Í bréfinu er fyrirtækið hvatt til að gera nauðsynlegar breytingar á starfsemi sinni til að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta og lyga á miðlinum. Til dæmis er það hvatt til að gera meira í baráttunni gegn lygum sem settar eru fram í myndböndum á öðrum tungumálum en ensku.