fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Ólafur Mixa er látinn – Fyrsti heimilislæknirinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 10. janúar 2022 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dr. Ólafur Mixa lést að morgni laugardagsins 8. janúar, í kjölfar sjúkdómslegu. Banamein hans var hjartabilun.

Ólafur var fæddur 16. október árið 1939, í Graz í Austurríki, en bjó mestan hluta ævi sinnar í Reykjavík. Hann stundaði nám við læknadeild Háskóla Íslands og Ludwig-Maximilians-Universität í München, Þýskalandi. Ennfremur lauk hann sérnámi í heimilislækningum frá háskólanum í Calgary í Kanada.

Ólafur varð fyrsti Íslendingurinn til að fá sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum, en það var árið 1971. Stundaði hann lækningar um áratugaskeið við afar góðan orðstír. Ólafur var frumkvöðull við stofnun og uppbyggingu heilsugæslu á Íslandi.

Ólafur var listhneigður maður og gaf sig mikið að leiklist. Hann sat í ritstjórn Leikhúsmála 1964-65 og lék nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar, Grímu og í Herranótt M.R.

Ólafur sat í aðalstjórn Rauða kross Íslands frá 1973 og var formaður Rauða krossins 1977-82. Ólafur var einn af stofnendum Félags íslenskra heimilislækna 1978, varaformaður félagsins 1978-82 og formaður 1983-87.

Ólafur var yfirlæknir heilsugæslunnar í Álftamýri 1986-94 og heilsugæslunnar í Lágmúla 1997-99 og yfirlæknir Skjóls frá stofnun 1987. Einnig var hann trúnaðarlæknir Leikfélags Reykjavíkur, þýska sendiráðsins og kanadíska konsúlatsins.

Ólafur var tvígiftur en báðar eiginkonur hans eru látnar. Fyrri eiginkona hans var Ásthildur Gísladóttir Köningseder sem lést árið 2008. Eftirlifandi börn þeirra eru Már og Halla Mixa.

Síðara hjónaband Ólafs var með Kristínu Þorsteinsdóttur sem lést árið 2017. Þau eignuðust eina dóttur, Katrínu Mixa.

Halla Mixa, dóttir Ólafs, sendi DV, eftirfarandi eftirmæli um föður sinn:

„Pabbi var hjartahlýr maður sem trúði á gæsku mannanna. Mikill spekúlant, hugsjónarmaður og víðsýnn. Hann var skemmtilegur og fyndinn og hafði þann eiginleika að geta séð áhugaverðar eða fyndnar hliðar á hversdagslegum viðburðum. Hann sinnti læknastarfi sínu með alúð og mikilli vandvirkni. Listin átti stóran sess í lífi hans og var hann mikill áhugamaður um tónlist, leiklist og myndlist – hann elskaði sköpunarkraft fólks og náttúrunnar, sem hann fann fyrir miklum tengslum við með árunum. Hann elskaði tré og fugla og átti til að taka ótal myndir af fallegum trjám á Íslandi og á ferðalögum. Uglusafnið hans er enn þekkt í dag og hluti þess enn sýnilegur á Læknavaktinni. Ljósið sem slokknaði í fyrradag skilur eftir mikinn skarð sem ekki verður fylltur.“

Katrín Mixa, yngri dóttir Ólafs,  birti falleg eftirmæli um föður sinn á Facebook-síðu sinni á sunnudagskvöld og eru þau eftirfarandi:

„Mætur maður er látinn. Maður sem snerti líf ótalmargra. Hugsandi maður með heitan hug og ágætis skammt af breyskleika. Maður heimsmála og teiknimynda, sem náði augnsambandi við dýrin í haga og skynjaði líðan þeirra. Góðlegur pabbi sem sagði að það fallegasta í heimi væru litlar stelpur og litlir fuglar. Maður sem vildi faðma víðfeðmi náttúrunnar. Oft svo grandalaus maður, auli í tæknimálum og klaufi við praktískar ákvarðanir. Sem barðist við sína djöfla um leið og hann barðist með öðrum við þeirra djöfla. Feminískur karlmaður sem beitti sér heill fyrir betra lífi fólks. Sérkennilega samsett innhverf félagsvera. Húmoristi sem greip á lofti og hnoðaði í misgott spé. Tónlistarspekúlant, vindlareykjari við hátíðlega hlutun, hæglátur lífsnautnakall. Eðaláhugamaður geðheilbrigðismála, hámenntaður frumkvöðull heilsugæslunnar, maður hinna verr stöddu. Hugsjónafíll sem breytti um lífsstefnu þegar hann upplifði hve mikinn vanda mætti bæta með miðlægri heilsuvernd. Viðkvæm manneskja, sem stundum réði verr við erfiðar áskoranir en hann áttaði sig á sjálfur. Góður kall með svo margt bak við sig. Maður með heitt hjarta og veikt, hjarta sem dreif hann áfram og dró til bana.“

DV sendir ættingjum og vinum Ólafs Mixa innilegar samúðarkveðjur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið
Fréttir
Í gær

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“