fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Lögfræðifúsk og réttarríki á háskabraut

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 9. janúar 2022 16:30

Fólk á leið í skimun. mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn spjallþáttastjórnenda Ríkissjónvarpsins tísti um daginn um hóp manna sem hann kallaði „andstæðinga sóttvarna“. Ég hnaut um þetta orðalag sem er að mínu áliti til merkis um þá skautun sem er að verða í umræðu samtímans — menn keppast við að útmála þá sem eru á öndverðri skoðun við sig sem einhvers konar þjóðníðinga.

Sjálfur umgengst ég mikinn fjölda fólks og þessar vikurnar er hvarvetna verið að ræða um kórónuveiruna, bólusetningu og fleira þessu tengt. Engan hef ég þó hitt sem flokkast gæti sem „andstæðingur sóttvarna“ en eðlilega — já ofureðlilega í lýðræðisríki — viðra menn ólíkar skoðanir á sóttvarnaraðgerðum yfirvalda. Sitthvað rekur sig þar á annars horn, ýmislegt er illa rökstutt og þar fram eftir götunum og ég er þakklátur fólki sem dregur fram galla í meðferð þessara mála enda þarf að gæta ítrustu varkárni þegar fólk er svipt mannréttindum. Samt er af ýmsum að skilja sem mannréttindi séu orðin algjört aukaatriði í þessu sambandi. Slíkt tal er háskalegt og sýnir okkur hversu brothætt réttarríkið í reynd er.

Ákvæðum sóttvarnarlaga ekki fylgt

Í fréttum undanfarna daga hefur verið fjallað um mál fjölskylduföðurs sem sætt hefur sóttkví samfellt frá 11. desember sl. þegar dóttir hans greindist smituð af kórónuveirunni en síðan þurfti hann áfram að sæta sóttkví frá 16. sama mánaðar eftir að sonur hans greindist og aftur frá 19. sama mánaðar vegna þess að eiginkona hans greindist. Hinn 30. desember greindist annar sonur mannsins með kórónuveiruna og var manninum því enn gert að sæta sóttkví — nú til miðnættis 13. janúar en að ákvörðun félli niður gengist hann undir PCR-próf fyrr í samræmi við 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1240/2021 og 14. og 2. mgr. 15. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Hann hefur nú undirgengist slíkt próf og er laus úr sóttkvínni enda ekki sýktur af umræddri veiru.

Maðurinn lét í tvígang reyna á ákvörðun um sóttkví fyrir dómi og byggði á því að hvorki hefði verið fylgt ákvæðum sóttvarnarlaga né stjórnsýslulaga þegar ákvörðunin var tekin um að skikka hann í sóttkví. Maðurinn vísaði meðal annars til 5. mgr. 14. gr. sóttvarnarlaga þar sem segir að sóttvarnarlæknir skuli — áður en tekin er stjórnvaldsákvörðun um aðgerðir — freista þess að ná samstarfi við hlutaðeigandi um viðeigandi og hóflegar aðgerðir þar sem fylgt skuli tilteknum fyrirmælum og reglum. Takist það ekki skuli sóttvarnarlæknir taka stjórnvaldsákvörðun í málinu að undangenginni málsmeðferð þar sem ákvæðum stjórnsýslulaga er fylgt.

Maðurinn bendir í málatilbúnaði sínum á að hvorki hafi verið leitað eftir samstarfi við hann um viðeigandi og hóflegar aðgerðir né heldur hafi ákvæðum stjórnsýsluslaga verið fylgt, meðal annars um jafnræði og meðalhóf. Manninum hafi einfaldlega verið gert að sæta sóttkví samfleytt frá 11. desember sl. án þess að nokkur rök standi til þess — enda hefði hann ítrekað fengið neikvæðar niðurstöður úr svonefndu PCR-prófi.

Allar vísindalegar tilvísanir skortir

Krafa sóttvarnarlæknis fyrir héraðsdómi í umræddu máli er athyglisverð lesning. Þar segir meðal annars að sjúkdómurinn sé „bráðsmitandi, en smitleiðir milli einstaklinga eru úða-, dropa- og snertismit“. Þrátt fyrir þetta þá hefur maðurinn ekki veikst. Þá stendur í kröfunni að allir séu útsettir fyrir smiti sem umgengist hafi sýktan einstakling eða verið innan við einn til tvo metra frá sýktum einstaklingi í meira en fimmtán mínútur eða „snert sameiginlega snertifleti“. Umræddur maður hefur verið með smituðum einstaklingum samfellt síðan 10. desember án þess að smitast. Þrátt fyrir langvarandi útsetningu smitast maðurinn ekki.

Þá skrifar sóttvarnarlæknir: „Á síðustu vikum hefur komið fram nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 og nefnist það omicron afbrigði.“ Og aftar í kröfu sinni fyrir héraðsdómi skrifar hann: „Um þessar mundir er um að ræða meira smitandi afbrigði kórónaveirunnar, fyrrnefnt omicron afbrigði, sem getur valdið víðtækum heilsufarslegum afleiðingum.“ Fyrir liggur að önnur afbrigði hafa valdið vanda en varla gengur að sóttvarnarlæknir nefni tiltekin afbrigði veirunnar í skrifum sínum — án þess að fjalla um það afbrigði sem hér um ræðir en maðurinn hefur enga vitneskju um hvaða afbrigði veirunnar eiginkona hans og börn hafa fengið. Svo virðist sem ómíkron-afbrigði veirunnar leiði miklu síður til alvarlegri veikinda en þau fyrri en sóttvarnarlæknir segir að samt sem áður geti „fjöldi þeirra sem veikist alvarlega og þurft að leggjast inn á spítala orðið meiri og hraðari af völdum omicron“. Þessi fullyrðing er ekki studd neinum gögnum.

Sóttvarnarlæknir segir undir lok kröfunnar fyrir héraðsdómi að vegna þess hversu smitandi nýja afbrigðið sé sé brýnt að bregðast við „með skjótum hætti til þess að afstýra nýrri bylgju eða takmarka hana“. Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun. Allir sjá að bylgjunni verður ekki „afstýrt“. Hún er fyrir löngu hafin og hefur kannski þegar náð hámarki. Sóttkví umrædds manns hefur því engin áhrif til að takmarka hana í ljósi gríðarmikillar útbreiðslu veirunnar.

Grípum aftur niður í kröfugerð sóttvarnarlæknis en hann skrifar meðal annars: „Á Íslandi hefur gengið vel að halda útbreiðslu COVID-19 í skefjum.“ Er það svo? Hefur raunhæfur samanburður verið gerður á dreifingu smita um samfélagið hér og í til dæmis álíka dreifðum byggðum nágrannalandanna? Sitthvað bendir til þess að þessi fullyrðing sóttvarnarlæknis sé hreinlega ekki rétt og að aðgerðir hafi litlu skilað til að hefta núverandi útbreiðslu veirunnar. Reyndar kemst sóttvarnarlæknir í mótsögn við sjálfan sig í kröfugerðinni þar sem hann fyrst hælir sér fyrir árangur við að hefta útbreiðslu um þessar mundir en getur þess strax í kjölfarið að faraldurinn sé í miklum vexti hérlendis og útlit sé fyrir „að alvarlega veikum einstaklingum kunni að fjölga mikið á næstu dögum og þurfi spítalainnlagnar við“. Sóttvarnarlæknir segir síðan að ef ekki væri fyrir núverandi aðgerðir væri útbreiðsla sjúkdómsins mun meiri og alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar miklu meiri. Þessi fullyrðing er eins og aðrar ekki studd neinum gögnum.

Ekkert meðalhóf

Sóttvarnarlæknir segir að umræddar aðgerðir séu í samræmi við meðalhóf án þess að rökstyðja það frekar. Meðalhóf í stjórnsýslurétti þýðir að ætíð skal beita vægasta úrræði sem að gagni getur komið til að ná fram lögmætu markmiði — til að forðast að borgararnir séu að að ósekju beittir íþyngjandi úrræðum. Í máli umrædds manns liggur fyrir að hægt hefði verið að notast við svokallaða „smitgát“ í stað sóttkvíar sem er mest íþyngjandi úrræðið í hans stöðu eða senda hann í mótefnamælingu til að athuga hvort hann væri búinn að sýkjast áður af veirunni.

Margar þjóðir hafa kosið að hætta sóttkví í ljósi mun mildari áhrifa ómíkron en fyrri afbrigða. Hvers vegna ekki hér? Sóttkví hefur heilsufarslega áhættu í för með sér og eykur líkur á kvíða og þunglyndi. Þeirrar áhættu er í engu getið í kröfugerð sóttvarnarlæknis en samt sem áður segir hann aðgerðirnar til þess fallnar að „vernda lýðheilsu“. Það er stóralvarlegur galli á kröfugerðinni að ekki vísað til neinna vísindalegra gagna. Sá sem þetta ritar hefur litlar forsendur til að leggja mat á umræddar fullyrðingar sóttvarnarlæknis, vera kann að þær standist skoðun en nauðsynlega þarf að vísa til heimilda eða gagna. Orð embættismannsins duga ekki ein og sér.

Dómstólar bregðast hlutverki sínu

Héraðsdómur jafnt sem Landsréttur hafa nú í tvígang staðfest kröfuna um að umræddum fjölskylduföður verði gert að sæta sóttkví en varla er nein efnisleg afstaða tekin til rökstuðnings hans í úrskurðunum. Héraðsdómur vísar bara til sóttvarnarlæknis, segir að löggjafanum og stjórnvöldum skuli „játað nokkurt svigrúm við mat á nauðsyn aðgerða“. „Nokkurt“ er býsna vægt til orða tekið þegar skert eru mannréttindi tugþúsunda. Landsréttur heggur í sama knérunn og segir að gefa verði sóttvarnarlækni „og öðrum stjórnvöldum nokkurt svigrúm til að meta nauðsyn aðgerða á hverjum tíma“.

Íslenskir dómstólar eru því í reynd að skauta fram hjá því að taka til endurskoðunar mat stjórnvalda í þessu efni. Það eru út af fyrir sig alvarleg tíðindi fyrir réttaríkið og gildir þá einu hvaða afstöðu menn hafa til sóttvarnaraðgerða — dómstólum ber skylda til að leggja efnislegt mat á allar framkomnar röksemdir málsaðila.

Gætum lagalegrar varkárni sem aldrei fyrr

Ein algengasta mótbáran við gagnrýni á sóttvarnarráðstafanir er að nú sé uppi sérstakt ástand og gera þurfi undantekningu, alveg nýjar aðstæður kalli á viðvarandi neyðarástand. Þetta er endurtekið stef í mannkynssögunni þar sem borgararnir láta raunverulegt frelsi sitt af hendi fyrir falskt öryggi. Timothy Snyder, prófessor við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, gerði þetta að umtalsefni í bók sinni On Tyranny sem komið hefur út í íslenskri þýðingu. Snyder hvetur borgara til að vera á varðbergi gagnvart orðum eins og neyðarástandi og undantekningartilviki. Slík orð hafi hugsanlega skelfilegar aukamerkingar. Athugum þó að í íslensku stjórnarskránni er ekkert ákvæði sem heimilar undantekningu frá lögum vegna neyðarástands. Og í reynd ættum við að vera mun strangari en ella á lögum og rétti við óvenjulegar aðstæður eins og nú eru uppi. Ég er þakklátur fyrir að þeir menn eru til sem standa á rétti sínum þrátt fyrir alla múgsefjum sem hnígur að skilyrðislausri hlýðni við yfirvöld — því sagan kennir okkur að nú um stundir er uppi sú hætta að réttarríkið bíði alvarlegan hnekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
28.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka