Líkt og dyggir lesendur DV vita spurðum við í gær hvort lesendur DV hefðu farið utan á Covid tímum. Spurningin var einföld og valmöguleikarnir sömuleiðis: Hefur þú ferðast til útlanda á Covid tímum. Covid tímar í þessu samhengi auðvitað tímabilið frá því að Covid faraldurinn brast á í byrjun árs 2020, og þangað til í dag. DV rifjaði það jafnframt upp að ferðaviðvaranir hafa verið í gildi fyrir öll lönd heims, nema Grænland sem þar til seint síðasta haust var talið öruggt.
Valmöguleikarnir voru einfaldir:
Aldrei, einu sinni, tvisvar sinnum, þrisvar sinnum, fjórum sinnum eða oftar, og loks: Ég fylgi Þórólfi og hef ferðast oft og mikið, en bara til Grænlands.
Um fimm þúsund atkvæði voru greidd, en aðeins er hægt að greiða atkvæði einu sinni úr hverri IP tölu. Sjálfsagt er það svo að sumir eiga nokkur tæki sem komast á netið og vafalaust vísindamaður eða tveir sem gætu fundið eitthvað við aðferðafræðina til að setja út á. En höfundur spyr þá á móti: Erum við ekki öll vísindamenn nú til dags?
Niðurstöðurnar, má sjá hér að neðan. Stærsta fréttin úr þeim auðvitað að helmingur landsmanna, eða rétt tæpur reyndar, um 46%, hefur ekki farið erlendis á meðan á Covid faraldrinum hefur staðið. Það hlýtur að telja nokkuð merkilegt í ljósi þess að árið 2019 fóru Íslendingar að meðaltali um þrisvar á ári utan. Það er af sem áður var. 22% segjast hafa farið einu sinni og 12% tvisvar.
Aðeins um 19% segjast hafa farið þrisvar eða oftar utan.