Kristín Dís Árnadóttir er á leið frá Breiðablik en félagið hefur samþykkt tilboð frá Brøndby í varnarmanninn knáa. Félagið tilkynnti þetta fyrir stuttu.
Kristín Dís er uppalinn hjá Blikum og hefur verið í hjarta varnarinnar síðustu ár. Hún hefur verið hluti af frábæru Blikaliði síðustu ár sem hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn og Mjólkurbikarinn. Þá tók hún þátt í Meistaradeildarævintýri Breiðabliks nú í vetur.
„Kristínu Dís er þakkað kærlega fyrir sitt framlag hjá Breiðabliki, þar sem hún hefur verið mikil fyrirmynd og mikilvægur liðsmaður innan félagsins. Við óskum henni góðs gengis í komandi verkefnum með Brøndby í Danmörku,“ segir í tilkynningu Breiðablik.