Mikil umræða hefur átt sér stað um hvaða merkingu beri að leggja í það þegar einhver gerir þumalinn upp, eða læk, við færslur á samfélagsmiðlum. Umræðan hófst eftir að nafntogaðir einstaklingar gerðu læk við færslu fjölmiðlamannsins Loga Bergmanns á Facebook í gær þar sem hann lýsti sig saklausan af ásökunum um kynferðisofbeldi.
Meðal þeirra sem hafa verið gagnrýndir fyrir að „læka“ færsluna er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) Sigríður Hrund Pétursdóttir.
Sigríður hefur nú dregið læk sitt til baka og kveðst miður sín yfir málinu. FKA hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem segir að lækið hafi verið mjög merkingarbært og að öllu óviðeigandi.
Áslaug Arna segir hins vegar að læk hennar hafi ekki falið í sér stuðning við gerendur. Hún hafi lækað færsluna til að sýna samkennd með loga, en þeim sé vel til vina. Í samtali við mbl.is segir hún:
„Á erfiðum tímum reyni ég að sýna þeim sem standa mér nærri samkennd, það má gera með öðrum hætti en ég gerði. En í því felst engin afstaða né vantrú á frásagnir þolenda“
Ljóst er að merking þess að „læka“ er hvergi skýrt skilgreind og virðist fólk læka færslur af mismunandi ástæðum.
Þórdís Valsdóttir, lögfræðingur og fjölmiðlakona, segir í pistli hjá Vísi að tjáningarfrelsið sé mikilvægt og það sé viss tjáning að taka ákvörðun um að setja læk við eitthvað sem við sjáum á samfélagsmiðlum. Þó ekki sá á hreinu hvaða skoðun sé verið að tjá með slíku þá sé fullt tilefni til að staldra við þegar um umdeild efni er að ræða.
„Sumir vilja meina að það teljist til ofsókna að setja út á þumlagleði þeirra sem gegna valda- og ábyrgðarstöðum í samfélaginu. En ég spyr, er til of mikils ætlað af þeim einstaklingum að láta hjá liggja að bregðast við færslum sem teljast verulega umdeildar?“
Á Íslandi sé nú í gangi bylting sem sé knúin áfram að miklu af yngri kynslóðinni og eigi sér stað á samfélagsmiðlum. Því ráði samskiptareglur á slíkum miðlum miklu.
„Nú láta konur ekki lengur bjóða sér að á þeim sé káfað, þær séu lítillækkaðar og segja má að tími hins margrómaða „kvennabósa“ sé útrunninn.
Þau mál tengd kynbundnu ofbeldi og áreitni sem hafa verið til umræðu upp á síðkastið eru einungis toppurinn á ísjakanum og fleiri mál munu koma upp á yfirborðið. Kannski er tímabært að allar kynslóðir aðlagi sig að breyttu umhverfi samskipta á tímum samfélagsmiðla og hugsi sig tvisvar um áður en þumallinn er mundaður.“
Jakob Bjarnar, fjölmiðlamaður, hefur líka tjáð sig um þá tjáningu sem fellst í því að gera læk við færslur á samfélagsmiðlum. Hann segir ekki hægt að túlka slík læk eftir eigið höfði og gefa sér að í þeim felist tiltekin afstaða.
„Jahérna. Sko, burtséð frá öllu og öllu (ég til að mynda frábið mér algjörlega því að vera vændur um gerendameðvirkni) þá er það algjörlega á hreinu að það gengur ekki að gefa sér einhverjar fyrirframgefnar forsendur og túlka læk á samfélagsmiðlum (af öllum fyrirbærum) eftir eigin höfði, út frá einhverjum vafasömum fræðum og að þau læk séu að gefnum þeim forsendum til marks um eitthvað alveg tiltekið. Og sú túlkun sé óhrekjanleg staðreynd og út frá henni skuli umræðan miðast. En við virðumst vera komin þangað.
Merking læks getur vitaskuld og auðvitað verið með ýmsu og margvíslegu móti. Að afneita því heita dólgafræði. Og er það ekki einmitt dólgsháttur sem við viljum berjast gegn?“
Jakob undrar sig á því að ekki hafi fleiri stigið fram og bent á þetta.
Fólk á samfélagsmiðlum hefur einnig velt fyrir sér merkingu læka. Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor, segir á Twitter að umræðan sé áhugaverð.
Í athugasemd bendir Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar, á að dómstólar hafi minnst einu sinni fjallað um gildi þess að „læka„.
Það hafi átt sér stað í lekamálinu en þá hafi verjandi Gísla Freys Valdórssonar haldið því fram að saksóknari væri vanhæfur í málinu þar sem hann hafði lækað færslu um málið á Facebook og þar með lýst yfir afstöðu. Dómari hafnaði þeim rökum.
Umræðan um merkingu atferlisins að gera "læk" við færslu á samfélagsmiðlum er áhugaverð. Er það fastmótað hvaða merkingu beri að leggja í "læk"? Er ásetningur "lækarins" skýr? Hamlar staða sumra því að þeir "læki"? Á að skýra "læk" til samræmis við hverja viðkomandi "followar"?
— Bjarni Már Magnússon (@BjarniMM) January 7, 2022
Valur Grettisson, ritstjóri The Reykjavík Grapevine, veltir því fyrir sér hvort það sé ekki hægt að sýna vini stuðning með læki, svo sem í máli Loga, án þess að í því felist að verið sé að rengja aðra í málinu.
Að því sögðu, þá finnst mér þetta líka ömurlegt skilaboð til Vítalíu sem hefur staðið sig eins og hetja í þessu öllu saman. Mér finnst samt þessi læk umræða frekar ýta undir skrímslavæðingu en hitt. 2/2
— Valur Grettisson (@valurgr) January 7, 2022
Jóhann Páll Jóhansson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, telja þó ljóst að með læki sé verið að taka opinbera afstöðu og í þessu máli hafi afstaða verið tekin gegn þolendum.
Ung kona situr undir því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fjöldi áhrifafólks í stjórnmálum og fjölmiðlum tekur opinbera afstöðu á samfélagsmiðlum um að frásögn hennar og upplifun af kynferðisofbeldi sé röng. Sendi henni stuðning og góða strauma ❤️
— Jóhann Páll 🔴 (@JPJohannsson) January 7, 2022
Áhugavert að @logibergmann loki á komment við status þar sem hann lýsir yfir sakleysi sínu – strax og fólk fer að spyrja @aslaugarna hvað hún meini með afstöðu sinni við statusinn.
Er það svona sem þöggunarmenning virkar? pic.twitter.com/5r208g0R5P— Andrés Ingi (@andresingi) January 6, 2022
Af umræðum dagsins má ráða að þó svo að fólk „læki“ færslur af ýmsum ástæðum þá geti það verið túlkað með neikvæðum hætti þegar um viðkvæm mál er að ræða. Þetta er heldur ekki í fyrsta skiptið sem þessi umræða kemur upp en fyrir skömmu gagnrýndi Áslaug Arna, sem nú er sjálf að verða fyrir gagnrýni, vararíkissaksóknara, Helga Magnús Gunnarsson, fyrir að læka færslu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns þar sem hann birti brot úr lögregluskýrslum í kynferðisbrotamáli knattspyrnumannsins Kolbeins Sigþórssonar.
Líklega er því mat Þórdísar Valsdóttur, sem fjallað er um hér að ofan, nokkuð réttmætt og best að flýta sér hægt að lyfta upp þumlinum, því maður veit aldrei hvernig slíkt gæti verið túlkað eða hvern það gæti þar með sært.