Sigurður Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, er laus úr gæsluvarðhaldi sem honum var gert að sæta í októberlok. Sigurður var með réttarstöðu sakbornings, ásamt fjórtán öðrum, vegna umfangsmikillar rannsóknar á fjársvikum, peningaþvætti og skjalafalsi. Var Sigurður og meint samverkafólk hans grunað um að stofnað til reikningsviðskipta við tugi fyrirtækja og svikið út tugi milljóna króna. Sigurður sat í gæsluvarðhaldi vikum saman vegna málsins.
En nú er Sigurður laus úr haldi og skellti sér við annan mann í nýjustu sundlaug Reykjavíkurborgar í Úlfarsárdal sem opnaði um miðjan desember. Þar bar athugull faðir kennsl á Sigurð og vakti máls á heimsókn hans í sundlaugina í Facebook-hópi íbúa í Úlfarsárdal. Þar varð talsvert uppnám vegna málsins og ljóst að íbúar kæra sig ekki um heimsóknir margdæmds barnaníðings í sundlaugina.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sundlaugaheimsóknir Sigurðar vekja usla í samfélaginu.
Eins og áður segir var hefur Sigurður ítrekað verið dæmdur fyrir kynferðisbrot auk auðgunarbrota en fangelsisdómar hans eru þrír, samtals 5 ár og 8 mánuðir. Í febrúar 2014 var hann dæmdur í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að tæla 17 ára dreng til kynferðismaka með blekkingum. Þann 13. mars sama ár undirgekkst Sigurður sektargreiðslu vegna þjófnaðar. Þá var hann dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi í desember 2014 fyrir umfangsmikil fjársvik gegn fyrirtækjum og einstaklingum. Alls var hann dæmdur til að greiða um átta milljónir í miskabætur. Hinn 23. september 2015 var Sigurður dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn níu piltum. Þá var honum gert að greiða 8,6 milljónir í miskabætur og rúmar sex milljónir króna í sakarkostnað.
Sigurður losnaði úr fangelsi í júní 2016 og lauk afplánun dómsins undir rafrænu eftirliti. Strax í kjölfarið gerðist Sigurður fastagestur í Salalaug í Kópavogi og varð í kjölfarið uppi fótur og fit meðal áhyggjufullra foreldra og fjölluðu allir helstu fjölmiðlar landsins um málið.
Samkvæmt umfjöllun DV á sínum tíma funduðu skólastjórnendur í Kópavogi vegna málsins og vildu banna Sigurði að heimsækja laugarnar.
Í viðtali við DV sagði Sigurður: „Ég spurði hvort ég mætti fara í sund áður en ég losnaði og þeir sögðu já,“ segir Sigurður og segir að daginn eftir umfjöllun fjölmiðla hafi honum verið meinað að fara í sund. Í upphaflega plagginu sem veitti honum reynslulausn segir hann að hvergi hafi komið fram að honum hafi verið meinaður aðgangur að sundlaugum. Eftir háværar umræður var Sigurður boðaður á fund daginn eftir og þá hafði því skilyrði verið bætt við.