„Ég treysti því að foreldrar vilji börnum sínum allt hið besta: Að þau fái samskonar vernd gegn alvarlegum afleiðingum COVID-19 og þeir hafa sjálfir þegið með bólusetningu. Börnin eiga rétt á að njóta besta heilsufars og heilbrigðisþjónustu í formi bólusetningar sem yfir 90% þjóðarinnar, 12 ára og eldri, hefur fengið nú þegar.“
Svona hefst pistill Ingileif Jónsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, skrifar en pistillinn birtist á Kjarnanum í dag. Í honum útskýrir Ingileif skýrt og greinilega hvers vegna foreldrar eiga að láta bólusetja börn sín.
„Alvarleg veikindi af völdum Delta afbrigðisins eru meiri hjá unglingum og börnum en af fyrri afbrigðum SARS–CoV-2 veirunnar. Þrátt fyrir að Ómíkron afbrigðið sé miklu meira smitandi en Delta eru Delta smit enn yfir 100 á dag á Íslandi, og börn eru aðallega að sýkjast af Delta, meðan ungir fullorðnir eru í meirihluta þeirra sem sýkjast af Ómíkron,“ segir hún.
Ingileif segir að mikilvægt sé að bólusetja börn þar sem þau geti veikst alvarlega af Covid-19. „Bólusetning verndar vel gegn bæði smiti og alvarlegum sjúkdómi af völdum Delta og annara afbrigða eins og Alfa, Beta og Gamma. Þótt vernd gegn Ómíkron sé minni en gegn Delta þá vekja þrír skammtar af Pfizer bóluefninu sambærilegt magn hlutleysandi mótefna gegn Ómíkron og 2 skammtar veita gegn Delta, og veita þannig einhverja vernd. Það er heldur ekki tryggt að Ómíkron sé síðasta afbrigði SARS–CoV-2, og ný afbrigði gætu þróast á grunni Alfa, Beta, Delta eða annara afbrigða og þá er gott að hafa byggt upp vernd og ónæmisminni sem Pfizer bóluefnið vekur gegn þeim,“ segir hún.
Í pistlinum fer Ingileif yfir gríðarlegt magn rannsókna sem sýna fram á virkni bólusetningar í baráttunni gegn Covid-19. Hún vísar meðal annars í niðurstöðu rannsóknar frá Ísrael þar sem gerður er samanburður á aukaverkunum eftir bólusetningu og svo staðfestum Covid-19 sýkingum.
„Algengustu aukaverkanir eftir COVID-19 sjúkdóm voru hjartsláttartruflanir, nýrnaskaði, segamyndun í lungum, blóðtappar og hjartaáföll, síðan koma hjartavöðvabólga og gollurshúsbólga. Allar þessar aukaverkanir voru miklu algengari eftir COVID-19 sjúkdóm en eftir bólusetningu (11 til 168 sinnum algengari). Sú rannsókn sýndi 18.28 falt aukna áhættu á hjartavöðva- og gollurshúsbólgu meðal 233.392 einstaklinga sem fengu COVID-19 í 1- 42 daga frá greiningu miðað við jafnmarga í stöðluðum viðmiðunarhópi. Hins vegar var aukning á áhættu á hjartavöðva- og gollurshúsbólgu 3,24 föld á 1. til 42. degi frá fyrra skammti af tveimur meðal 884.828 bólusettra með Pfizer bóluefninu miðað við jafnmarga í stöðluðum viðmiðunarhópi. Þannig eru alvarlegar aukaverkanir af Pfizer bóluefninu miklu sjaldgæfari en sömu aukaverkanir í kjölfar COVID-19 sýkingar.“
Ingileif vísar í aðra rannsókn sem gerð var í Bretlandi sem sýnir einnig hve áhrifarík bólusetning er.. „Í rannsókn á sjúkrahúsinnlögn eða dauða af völdum hjartavöðvabólgu, gollurshúsbólgu eða hjartsláttartruflana meðal rúmlega 38 milljóna bólusettra einstaklinga og rúmlega 3 milljóna SARS–CoV-2 sýktra í Bretlandi, sem birtist í Nature Medicine um miðjan desember síðastliðinn kom fram 1,31-föld aukin áhætta á hjartavöðvabólgu innan 1 til 28 daga frá bólusetningu með Pfizer bóluefninu (fjöldi = 16.993.389), 1,30-föld aukin áhætta eftir annan skammt (ekki marktæk), meðan 9,76-falt aukin áhætta var eftir PCR staðfesta SARS–CoV-2 sýkingu (fjöldi = 3.028.867).
Hún segir hlutfallslega áhættu á sjúkrahúsinnlögn hafa verið meiri eftir Covid-19 sýkingu en eftir bólusetningu bæði hjá þeim sem eru yngri en 40 ára og hjá þeim sem eru 40 ár eða eldri.
„Hjá karlmönnum yngri en 40 ára var aukin áhætta 1.83-föld eftir Pfizer bólusetningu, en 4.06-föld eftir PCR staðfesta SARS–CoV-2 sýkingu. Sama rannsóknateymi birti bráðabirgðaniðurstöður (óritrýndar) 26. des. sl. sem sýndu að aukin áhætta á sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum hjartavöðvabólgu meðal 42 milljón einstaklinga í Bretlandi var meiri eftir COVID-19 sýkingu en eftir bólusetningu. Áhættan á hjartavöðvabólgu jókst við endurteknar bólusetningar með mRNA bóluefnum en er mjög lág í heildina, og jókst aðeins um 2 tilfelli á hverja milljón einstaklinga sem fengu örvunarskammt af Pfizer bóluefninu.“
Ingileif fer þá yfir í að ræða áhrif Covid-19 á börn. „Því er oft ranglega haldið fram að börn veikist ekki af COVID-19. Vissulega smitast þau sjaldnar og veikjast sjaldnar en fullorðnir, einkum aldraðir. Þegar Delta afbrigðið sem er meira smitandi en fyrri afbrigði, breiddist út í heiminum kom í ljós að SARS–CoV-2 veiran getur líka valdið alvarlegum veikindum hjá börnum, þótt flest veikist ekki alvarlega, sem betur fer,“ segir hún.
„Sjúkrahúsinnlagnir þessa aldurshóps vegna COVID-19 fóru hratt vaxandi með tilkomu Delta.“
Hún segir að samkvæmt upplýsingum frá Smitsjúkdómastofnun Evrópu (ECDC) var mikil aukning sjúkrahúsinnlagna COVID-19 sjúklinga á öllum aldri í Evrópu á haustmánuðum. „COVID-19 hjá börnum er sem betur fer oftast einkennalítill og afleiðingar ekki alvarlegar. Alvarleg einkenni COVID-19 eru sjaldgæf hjá 5-11 ára börnum; af 65.800 börnum 5-11 ára, með COVID-19 veikindi með einkennum í 10 Evrópulöndum voru 0,61% lögð inn á sjúkrahús á Delta tímabilinu, og 0,06% þurftu á gjörgæslu/öndunarvél að halda. Áhættan á sjúkrahúsinnlögn 5-11 ára barna er 12-föld og áhætta á gjörgæsluinnlögn 19-föld ef þau hafa undirliggjandi sjúkdóma,“ segir hún.
„Mikilvægt er að benda á að mikill meirihluti (78%) barna í þessum aldurshópi sem þurfti að leggja inn á sjúkrahús höfðu enga undirliggjandi sjúkdóma. “
Máli sínu til stuðnings vísar Ingileif í nýlega rannsókn sem gerð var á veikindum 915 barna undir 18 ára sem lágu á sjúkrahúsi vegna Covid-19 á sex barnaspítölum í Bandaríkjunum sumarið 2021. Hún segir 77,9% þessara barna hafa verið lögð inn vegna bráðra COVID-19 veikinda en 19,3% barnanna greindust með Covid-19 eftir innlögn.
„Af þeim 713 börnum sem voru lögð inn vegna COVID-19, voru 24,7% undir 1 árs aldri, 17,1% voru 1-4 ára, 20,1% voru 5–11 ára, og 38.1% voru 12–17 ára. 67.5% höfðu undirliggjandi áhættuþætti, þar sem offita var algengust (32,4%), en aðrar veirusýkingar (co–infections) var mjög algengar líka, mest hjá börnum undir 5 ára (33,9%). Meira en helmingur þeirra barna sem voru lögð inn vegna COVID-19 þurfti súrefni, tæplega þriðjungur þurfti innlögn á gjörgæslu og 1,5% létust. Það sorglega er að af þeim 272 börnum 12-17 ára sem áttu rétt á bólusetningu var aðeins 1 barn fullbólusett (0,4%). Tuttugu börn (2,7%) höfðu fjölkerfa bólgusjúkdóm, MIS-C (multi-system inflammatory syndrome), sem er sjaldgæfur en mjög alvarlegur COVID-19 tengdur bólgusjúkdómur í ýmsum líffærum. Höfundar leggja áherslu á að rannsóknin sýni mikilvægi þess að vernda 5-11 ára börn með bólusetningum og öðrum aðgerðum gegn COVID-19.“
Þá vísar hún í aðra nýlega bandaríska rannsókn sem gerð var á 5.217 börnum undir 18 ára aldri sem fengu Covid-19 tengda fjölkerfa bólgusjúkdóminn MIS-C í Bandaríkjunum en rannsóknin sýndi að 44% barnanna voru á aldrinum 5-11 ára. „Börn geta líka fengið langvinnar afleiðingar COVID (long–COVID) jafnvel eftir væga og einkennalausa COVID-19 sýkingu,“ segir hún.
„Meðal afleiðinga COVID-19 sýkingar eru hjartavöðvabólga og gollurshússbólga, sem er sjaldgæfari hjá 5-11 ára börnum en unglingum og ungum fullorðnum. Niðurstöður rannsóknar smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna (CDC) sýna 36,8-falt aukna áhættu á hjartavöðvabólgu hjá börnum undir 16 ára sem sýkjast af COVID-19. COVID-19 er nú áttunda algengasta dánarorsök 5-11 ára barna í Bandaríkjunum.“
Í pistlinum, sem lesa má í heild sinni hérna, fer Ingileif yfir ennþá meiri tölfræði sem rökstyður hvers vegna mikilvægt er fyrir foreldra að bólusetja börn sín. „Fyrir lesendur sem ekki eru vanir að lesa tölfræði af þessu tagi segja tölurnar hér að ofan kannski ekki mikið,“ segir hún undir lokin á pistlinum.
„En fyrir alla sem leggja á sig að lesa og rýna í þær má vera ljóst að nýjar ábyggilegar rannsóknir sýna, svart á hvítu, að við eigum að tryggja 5-11 ára börnum sömu heilbrigðisþjónustu og þeim sem eldri eru, og sömu vernd gegn alvarlegum afleiðingum COVID-19 með bólusetningu. Þau eiga rétt á því eins og aðrir landsmenn, þannig sýnum við þeim umhyggju og færum þeim bestu vernd sem völ er á.“