fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Ár frá árás óþverralýðs á þinghúsið í Washington

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 6. janúar 2022 11:30

Stuðningsmenn Donald Trump réðust á þinghúsið 6. janúar 2021. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ár er í dag liðið frá árás æsts múgs stuðningsmanna Donalds Trumps þáverandi Bandaríkjaforseta. Árásin markaði hápunkt, eða lágpunkt, baráttu Trumps fyrir því að láta ógilda, breyta eða að öðru leyti snúa niðurstöðum forsetakosninganna sem hann gjörtapaði í byrjun nóvember árið 2020.

Dagurinn hófst sem hver annar í Washington-borg. Mikil spenna hafði legið yfir borginni frá því niðurstöður kosninganna lágu fyrir viku eftir kjördag. Trump var á útleið og það virtust allir vita það, nema hann sjálfur. Á þessum tímapunkti var Trump búinn að láta góma sig við að beita margvíslegum brögðum til þess að breyta úrslitum í hinum ýmsu ríkjum. Meðal annars var upptöku af símtali forsetans við kjörinn fulltrúa í Georgíuríki lekið, en þar mátti heyra forsetann biðja um að að nokkur þúsund atkvæði yrðu „fundin.“

Nákvæm tala sem forsetinn nefndi í símtalinu var engin tilviljun. Einu atkvæði fleiri en atkvæðafjöldinn sem hann tapaði með.

Morguninn 6. janúar, 14 dögum fyrir innsetningarathöfn Joe Bidens, arftaka Trumps í embætti, boðaði forsetinn tapsári til fundar á lóð Hvíta hússins.

Þúsundir stuðningsmanna forsetans víðs vegar að úr Bandaríkjunum flykktust til höfuðborgarinnar til þess að sýna sig, og sjá aðra, væntanlega. Sumir mættu prúðbúnir, í bjarnaskinni og umvafðir fána Bandaríkjanna.

Í ræðu sinni fór Trump um víðan völl, en helst ber þó að nefna það þegar forsetinn hvatti stuðningsmenn sína til þess að taka stefnu á þinghúsið, og „láta Nancy Pelosi og Mike Pence heyra hvað alvöru Ameríkubúum finnst.“

Áhorfendur, blóðheitir stuðningsmenn Trumps, létu ekki segja sér það tvisvar. Halarófan liðaðist upp Pennsylvaníu-breiðgötu sem þverar borgina og teygir sig á milli Hvíta hússins og þinghússins. Þremur árum og fimmtíu vikum áður hafði Trump marserað þá sömu götu í öfuga átt, að innsetningarathöfn sinni lokinni – en í aðeins öðrum tilgangi.

Þegar að þinghúsinu var komið leið ekki á löngu þar til múgurinn lét til skarar skríða. Fréttastofur vestanhafs hafa síðan púslað saman myndbrotum sem óeirðaseggirnir skildu eftir sig víðs vegar um internetið, myndbönd sem síðar áttu eftir að verða sönnunargögn í alríkissakamálum gegn þeim. Með því að búa til tímalínu úr þeim myndböndum má sjá að árásin var ekki skipulögð af hópnum sjálfum heldur varð til á staðnum í æsingnum. Varð það síðar vatn á myllu þeirra sem kenndu forsetanum um hamaganginn.

Fimm létust þennan dag í og við þinghúsið. Einn var skotinn af lögreglu og lést af sárum sínum. Einn lést úr ofneyslu vímuefna og þrír létust af náttúrulegum orsökum.

Til viðbótar frömdu fjórir lögreglumenn sem vörðu þinghúsið og þingmenn þennan dag sjálfsmorð í kjölfar þessa örlagaríka dags.

Fljótlega eftir árásina samþykkti neðri deild Bandaríkjaþings að ákæra Donald Trump til embættismissis, en hann átti þá aðeins örfáa daga eftir í embætti. Efri deildin, sem réttaði í málinu sýknaði þó forsetann en hann hafði þá þegar látið af embætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Leitað að hinni fágætu Mirabel með geltandi dróna – Hugsanlegt að henni hafi verið stolið

Leitað að hinni fágætu Mirabel með geltandi dróna – Hugsanlegt að henni hafi verið stolið
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Aftur reynt að brjótast inn í hraðbankann á Völlunum – „Peningahólfið er mjög rammgert“

Aftur reynt að brjótast inn í hraðbankann á Völlunum – „Peningahólfið er mjög rammgert“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvítt ryk hrellir bílaeigendur í nágrenni við niðurrifnu Íslandsbankabygginguna – „Bíllinn er allur þakinn“

Hvítt ryk hrellir bílaeigendur í nágrenni við niðurrifnu Íslandsbankabygginguna – „Bíllinn er allur þakinn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvað gerðist á bak við tjöldin sem lét Biden hætta við

Hvað gerðist á bak við tjöldin sem lét Biden hætta við