Eina kvikmyndin á listanum þar sem ekki er töluð enska – Eins mögnuð og Íslendingasögurnar
Íslenska kvikmyndin Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, er á lista BBC yfir þær kvikmyndir sem breskir kvikmyndasérfræðingar segja að fólk verði að sjá í febrúar.
Í dag var birtur listi á vef BBC þar sem farið er yfir nokkrar kvikmyndir sem frumsýndar verða víðs vegar um heiminn í febrúar. Yfirskrift greinarinnar er „kvikmyndir sem þú verður að sjá.“
Á listanum eru 8 kvikmyndir. Á meðal þeirra er Spotlight, sem tilnefnd er til Óskarsverðlaunanna, grínmyndin Zoolander 2, hasarmyndin Deadpool og Rams, eða Hrútar.
Hrútar er eina kvikmyndin á listanum þar sem ekki er töluð enska. Í greininni segir að um dramatíska íslenska kvikmynd sé að ræða sem hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni Cannes.
Þá er vitnað í gagnrýni The Guardian þar sem segir að Hrútar sé svo mögnuð að hún minni á Íslendingasögurnar.
Kvikmyndin Hrútar verður frumsýnd í Bandaríkjunum 3. febrúar og 5. febrúar í Bretlandi.