Flugvél frá íslenska fraktflugfélaginu Bluebird Nordic þurfti að lýsa yfir neyðarástandi í miðju flugi í morgun. Flugvélin var á leið til Íslands en lagt var af stað frá Billund, Danmörku klukkan 7 í morgun. Flugvélin þurfti að neyðarlenda í Glasgow, Skotlandi.
Flugvélin átti að lenda hér á landi um klukkan 9 í morgun en þegar tæpur klukkutími var liðinn frá flugtaki komu tilkynningar um neyðarástand. „Ekki er vitað hver ástæðan er að sinni,“ var skrifað í færslu á Twitter-síðu Flightradar24 í morgun. Þá kemur fram í færslunni að hugsanlega hafi verið um þrýstingsvandamál að ræða þar sem flugvélin hafði lækkað flug sitt.
Neyðarástandið kom upp þegar flugvélin var að nálgast Færeyjar en samkvæmt Flightradar24 hefði ekki verið hægt að neyðarlenda vélinni í Færeyjum. „Flugbrautin í Færeyjum er mjög stutt og er ekki hentug til neyðarlendinga.“
Samkvæmt skoska fjölmiðlinum Herald var ekki verið að flytja neitt hættulegt í fraktfluginu.