Talsverður erill var hjá lögreglu í nótt vegna útkalla sem tengdust eldi eða óvarlegri meðferð flugelda. Þannig voru þrettán útköll vegna gróðurelda, bæði í Reykjavík og Garðabæ, en einnig útköll vegna elds í þaki húss sem og elds í ruslatunnum og gámum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkur útköll snerust um óvarlega notkun flugelda hjá yngri kynslóðinni. Þannig var tilkynnt um krakka sem settu flugelda inn um kattarlúgu á heimili í Reykjavík en þeir voru flúnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Engar skemmdir urðu vegna atviksins.
Þá var flugeldur sprengdur í stigahúsi í Hafnarfirði en engin slys urðu á fólki.