Lögreglan gaf í dag út skýrslu með tölfræði fyrir árið sem er að líða en um það bil 189 þúsund mál sem fela í sér brot og verkefni voru skráð hjá lögreglunni á árinu. Það jafngildir um 518 málum á sólarhring eða 22 málum á hverri klukkustund.
Um 43% þessara mála voru skráð á höfuðborgarsvæðinu. 15% voru á Vesturlandi, 11% á Suðurlandi og 10% á Suðurnesjum. „Mikill fjöldi á Vesturlandi má rekja til hraðakstursbrota á stafrænar hraðamyndavélar sem skrást í umdæminu,“ segir í skýrslunni en hraðakstursbrot eru yfir 62% af heildarfjölda þeirra 82 þúsund brota sem lögreglunni var tilkynnt um á árinu.
„Ef hraðakstursbrot eru frátalin bárust að meðaltali 85 tilkynningar um brot á dag á landsvísu árið 2021. Hegningarlagabrot voru 6% fleiri en síðustu þrjú ár á undan, en sérrefsilagabrot voru um 8% færri og umferðarlagabrot 9% færri.“
Tilkynningar um ofbeldisbrot í ár voru um 9% fleiri en síðustu þrjú ár. Um það bil 73% ofbeldisbrotanna sem tilkynnt var um á árinu áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu en þeim fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi, þar var tilkynnt um 50% fleiri ofbeldisbrot en að meðaltali síðustu þrjú ár. Tæplega 75% af ofbeldisbrotunum eru flokkuð sem minniháttar líkamsárásir. Karlar voru í miklum meirihluta þegar kemur að gerendum í brotunum en um 73% gerendanna á árinu voru karlkyns. Þá var meðalaldurinn um 33 ára.
Fjöldi heimilisofbeldismála í ár er svipaður og í fyrra, 1090 tilvik voru tilkynnt en það jafngildir að meðaltali um 3 tilvikum á dag. Í skýrslunni kemur fram að fjöldi tilfella ofbeldis af hendi maka eða fyrrum maka síðustu tvö árin hefur aldrei verið meiri eða í kringum 750 bæði árin. Ofbeldi af hendi foreldris voru um 100 á árinu sem er að líða og ofbeldi af hendi barns í garð foreldris um 160 talsins.
Töluvert fleiri kynferðisbrot voru tilkynnt árið 2021 en árið 2020 en alls voru tilkynnt brot 662 talsins, það er um 24% meira en í fyrra. Að meðaltali voru tæplega tvö kynferðisbrot tilkynnt á dag en tvö af hverjum þremur þessara brota áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningar um nauðganir voru töluvert fleiri í ár en í fyrra, árið 2020 voru þær 161 en í ár voru þær 216 sem er svipaður fjöldi og árið 2019.
Lögreglan telur að mögulega megi rekja fjöldann árið 2020 til þess að þá var meira um samkomutakmarkanir en í ár. Þá nefnir lögreglan að barir og skemmtistaðir hafi í meira mæli verið með skertan opnunartíma og minna hafi veirð um almennt skemmtanahald í fyrra.
Líkt og í ofbeldisbrotunum eru karlar í miklum meirihluta þegar kemur að gerendum en 82% gerenda í kynferðisbrotamálum voru karlkyns. Meðalaldur gerenda í kynferðisbrotamálunum er nokkuð lægri en í ofbeldisbrotunum eða um 28 ára.