Helgi Sigurðsson er nýr aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals. Félagið staðfesti þetta á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu.
Helgi á að baki langan og farsælan feril bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann lék 62 leiki fyrir íslenska landsliðið og var í lykilhlutverki í liði Valsmanna árið 2007 þegar félagið tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 20 ár, en hann var meðal annars valinn leikmaður mótsins.
Hann þjálfaði síðast meistaraflokk ÍBV en lét af störfum í september síðastliðnum eftir tvö ár í starfi. Hann kemur í stað Srdjan Tufegdzic, eða Túfa eins og hann er jafnan kallaður, en hann hætti rétt fyrir jól til að taka við þjálfun sænska liðsins Öster.