Af úrskurðinum sést að nágranninn hafi áreitt fjölskylduna um árabil með ýmsum hætti. Greindi fjölskyldan frá því að maðurinn hafi prentað út myndir af fjölskylduföðurnum og hengt þær upp á almannafæri þar sem hann taldi öruggt að dæturnar yrðu varar við þær, eða víðs vegar um leiðina sem þær ganga á leið í skóla. Það virðist hafa kornið sem fyllti mælinn í erjunum við þennan erfiða nágranna, og því hafa foreldrarnir kært hann fyrir umsáturseinelti.
Nágrannaerjurnar áttu sér þó forsögu, en málið á að hafa byrjað árið 2019. Nágranninn bjó hjá foreldrum sínum fyrir neðan fjölskylduna og þurfti fjölskyldan í þrígang að kalla til lögreglu vegna hans árið 2020.
Fyrsta atvikið á að hafa byrjað vegna kannabisreykinga mannsins, en reykur og lykt á að hafa farið inn í íbúð fjölskyldunnar, og þau hringt á lögreglu. Einn fjölskyldumeðlimurinn á þá að hafa bankað upp á hjá manninum, og hann komið til dyra og sýnt ógnandi tilburði. Lögreglan mætti síðan á vettvang og ræddi við manninn.
Annað atvikið byrjaði á svipaðan hátt, en aftur hringdi fjölskyldan á lögreglu vegna kannabisreykinga. Einn fjölskyldumeðlimurinn á þá að hafa hringt í manninn sem varð til þess að hann kom stuttu seinna í heimsókn og heimtaði að fjölskyldumeðlimurinn talaði við hann úti, og hann féllst á það.
Þegar út var komið á hann að hafa sagt: „Þú þarft að passa þig hverjum þú ert að fokka í, það er aldrei að vita hvað þær gætu gert“. Auk þess á hann að hafa talað um að hafa hrakið fyrrum eigendur íbúðar fjölskyldunnar í burtu, og sagt að ætlun sín væri að gera slíkt hið sama við fjölskylduna. Lögregla kom á vettvang og þá kvaðst maðurinn ætla að láta af umræddri háttsemi.
Næst var óskað eftir lögreglu þegar einn fjölskyldumeðlimurinn vildi meina að maðurinn léki sér að því að mæta sér á göngum hússins og axla sig. Auk þess á hann að hafa staðið fyrir utan heimili þeirra og tekið myndir af fjölskyldunni inn um glugga á heimili þeirra.
Síðan virðist vera sem fjölskyldan hafi ekki orðið vör við manninn í eitt og hálft ár, þar sem hann hefði flutt.
Í september á þessu ári segist fjölskyldan aftur hafa orðið mannsins vör. Dóttir úr fjölskyldunni hafi verið á leið úr skólanum og tekið eftir mynd af föður sínum á leiðinni. Á myndinni sást faðirinn með vínglas í hönd, og á hana hafði fíkniefnasími lögreglu verið skrifaður. Í kjölfarið tók annað foreldrið rúnt um göturnar í kring og fann umrædda mynd, og aðra eins á öðrum stað.
Foreldrarnir telja að maðurinn hafi kortlagt ferðir dætra sinna, og komist sérstaklega að því hvað leið þær færu á leið í skólann. Myndirnar voru afhentar lögreglu
Tæplega viku síðar voru myndirnar aftur komnar upp, en í þetta skipti var vinnustaður föðurins tilgreindur. Fram kemur að þessar myndir hafa valdið fjölskyldunni mikilli vanlíðan. Foreldrarnir hafi óttast um líf og velferð þeirra og dætranna.
Þá er tekið fram að einstaklingur tengdur manninum á að hafa verið miður sín yfir meintri hegðun mannsins og hvatt fjölskylduna til að leita aðstoðar lögreglu.
Þá á fjölskyldan að hafa greint frá frekari óþægindum sem maðurinn á að hafa ollið þeim. Þar er minnst á dæmi þar sem hann á að hafa hrækt á bifreið fjölskyldunnar á meðan faðirinn sat í henni, og þá á hann að hafa ausið yfir þeim fúkyrðum er hann mætti þeim, líka þegar börnin voru með í för.
Líkt og áður segir staðfesti Landsréttur nálgunarbannið yfir manninum í gær, en úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var gefinn út viku áður.